Hundruð mót­mæl­enda komu saman fyrir framan breska þingið í dag og þurftu lögregluþjónar á hestbaki að skarast í leikinn þegar slagsmál brutust út milli hópa sem voru ýmist með eða á móti útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Anna Soubry, fyrrum þingmaður Íhaldsflokksins, sem fór yfir í samsteypuflokkinn Change UK sem vilja halda Bretlandi innan Evrópusambandsins, ætlaði sér að halda ræðu á mótmælunum. Soubry varð hrædd þegar ólgan byrjaði að myndast milli mótmælendanna og hætti hún við að flytja erindi.

Hópur ungra manna í Lýðræðisbandalagi fótboltastráka (e. Democratic Football Lads Alliance eða DFLA), sem hafa lýst yfir stuðningi fyrir útgöngu, köstuðu bjórdósum í meðlimi Change UK flokksins.

Stór hópur mótmælenda safnaðist einnig saman fyrir utan Downingstræti 10 til að krefjast afsagnar forsætisráðherrans Boris Johnson.

Forsætisráðherrann á það á hættu að vera fangelsaður, fari hann ekki eftir vilja þingsins um að sækja um frestun á útgöngudegi Breta úr Evrópusambandinu. Þetta segja breskir lögvitringar í frétt Guardian í dag.

„Nú er komin upp sú stórfurðulega staða, að forsætisráðherrann telur sig vera hafinn yfir lög og reglur,“ sagði Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkalýðsflokksins, á viðburði í borginni Norwich í dag.

Johnson sagði við meðlimi Íhaldsflokksins að hann muni ekki biðja um frest, þrátt fyrir niðurstöðu þingsins, að því er fram kemur á fréttavef the Telegraph. Hann hefur áður sagt opinberlega að hann muni ekki, undir neinum kringumstæðum, biðja um frest.