Mótmælt var úti á götum Lundúna og Glasgow í dag til þess að krefjast skilvirkari aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar til að bregðast við loftslagsbreytingum. Mótmælin koma í kjölfar hitabylgju sem sló hvert hitametið á fætur öðru í Bretlandi og hefur kveikt fjölda gróðurelda á meginlandi Evrópu.

Aðgerðahópar á borð við samtökin Just Stop Oil og Insulate Britain skipulögðu mótmælin. Mótmælendurnir krefjast þess meðal annars að ríkisstjórn Bretlands hætti að veita ný leyfi fyrir vinnslu olíu og gass, að hærri skattar verði settir á mengandi stóriðju og almenningi verði hjálpað að tengja heimili sín við vistvænni orkukerfi.

„Hitabylgjan á fimmtudaginn var viðvörum um það sem við stöndum frammi fyrir þegar loftslagið splundrast – þúsundir dauðsfalla, heimili sem verða gróðureldum að bráð og neyðarþjónustur sem strita að baki brotnu,“ sagði Indigo Rumbelow frá Just Stop Oil. „Við erum svo illa búin undir ofsahitann og þetta á bara eftir að versna.“

Mótmælendur komu víðs vegar að úr borginni og settust fyrir framan neðri málstofu breska þingsins.
Mynd/Getty

Í Glasgow lögðust mótmælendur á götuna fyrir framan eina stærstu verslunarmiðstöð borgarinnar og þöktu sig með hvítum klæðum sem voru merkt með ýmsum dánarorsökum, þar á meðal hita, hungursneyð og vatnsskorti.

Í Lundúnum gengu mótmælendur frá miðbænum og söfnuðustu saman fyrir framan torgið við Westminster. Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins, var meðal mótmælendanna í borginni. Hann sagði ekki hægt að aðskilja loftslagsvána frá kreppunni í almennum framfærslukostnaði.

„Það er of heitt og allt er of dýrt,“ sagði Corbyn. „Það er kreppan.“