Átök hafa brotist út milli mót­mælenda og lög­reglu í Brussel en lög­regla hefur beitt tára­gasi og vatns­byssum til að reyna að tvístra hópnum.

Stór hópur mót­mælenda safnaðist saman í höfuð­borg Belgíu í dag til að mót­mæla sótt­varnar­að­gerðum yfir­valda. Mót­mælin voru skipu­lögð af sam­tökunum Europeans United og Worldwi­de Demonstration. Bæði sam­tökin hafa gagn­rýnt sótt­varnar­að­gerðir og bólu­setningar­reglur harð­lega.

Mótmælendur báru alls konar skilti.
Fréttablaðið/EPA

Sam­kvæmt frétt á belgíska vef­miðlinum VRT er mark­miðið með mót­mælunum að sýna að stór hópur fólks upp­lifi sig radd­laust og vilji breikka um­ræðuna varðandi við­brögð yfir­valda við heims­far­aldri Co­vid-19.

Mót­mælendur báru skilti sem mót­mæla sér­stak­lega Co­vid Safe passanum, sam­kvæmt frétt The Guar­dian, en passinn er notaður til að komast inn á á­kveðna staði. Til að fá passann þarf að vera með bólu­setningu eða nei­kvætt Co­vid-próf.

Ein­hverjir mót­mælendanna réðust að EEAS skrif­stofu Evrópu­sam­bandsins og brutu glugga og hurðar.

Skemmdir voru unnar á skrifstofu EEAS.
Fréttablaðið/EPA

Sam­bæri­leg mót­mæli hafa verið boðuð á Ís­landi klukkan fjögur í dag og er Ágústa Eva Er­lends­dóttir leik­kona ein af ræðu­mönnum. Mót­mælin eru skipu­lögð af sam­tökunum Frelsi og á­byrgð í sam­starfi við sam­tökin Worldwi­de Demonstration.