Hópur fólks safnaðist saman við skrifstofu Útlendingastofnunar í Hafnarfirði til þess að mótmæla aðstæðum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Þar á eftir var haldið að skrifstofu Útlendingastofnunar í Kópavogi. Boðað var til mótmælanna á Facebook-síðunni Refugees in Iceland, eða Flóttafólk á Íslandi. 

Sjá einnig: Áfallateymi RKÍ á Ásbrú vegna sjálfsvígstilraunar

Um er að ræða þriðju mótmælin á skömmum tíma en í lýsingu mótmælanna kemur fram að mótmælendur hafi óskað eftir áheyrn íslenskra yfirvalda en engin svör fengist. 
„Á sama tíma er fólk þvingað til brottvísunar í hverri viku, okkur er haldið í einangrun þar til sökkvum í þunglyndi og örvæntingu sem hefur keyrt of marga átt að sjálfsvígi og sjálfsskaða.“ 

Sjá einnigÖnnur tilraun til sjálfsvígs á Ásbrú: „Þurfum hjálp“

Kröfur mótmælenda eru fimm og snúa meðal annars að því að brottvísunum verði hætt, að allir fái áheyrn sinna mála og réttinn til að fá að vinna. Þá vilja mótmælendur fá jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu og að flóttamannabúðum í Ásbrú verði lokað. 

Sjá einnig: „Þetta er ekkert líf“ og Flótta­­fólk mót­­mælir: „Líf okkar eru í húfi“

Greint var frá því í gær að annar flóttamaðurinn á skömmum tíma, hefði reynt að svipta sig lífi. Báðir flóttamennirnir eru búsettir í Ásbrú en sá fyrri var fluttur á sjúkrahús á laugardaginn. Sá síðari, að því sem kemur í færslu hjá samtökunum Ekki fleiri brottvísanir, var maðurinn leiddur burt í handjárnum, blóðugur og buxnalaus eftir sjálfsvígstilraunina.