„Það er reglan en ekki undantekningin að mæður sem greina frá áhyggjum sínum af ofbeldi í forsjár- og umgengnismálum séu ekki teknar trúanlega,“ segir Sigrún Sif Jóelsdóttir, talsmaður Líf án ofbeldis, í samtali við Fréttablaðið. Hreyfingunni Líf án ofbeldis var hrundið af stað vegna endurtekinna úrskurða í umgengismálum þar sem börn eru skikkuð í umgengni við gerendur sína, barnaníðinga og ofbeldismenn að sögn Sigrúnar.
Mæður gjaldfelldar af yfirvöldum
Hún bendir á að áhyggjur mæðra af ofbeldishættu séu oft notaðar gegn þeim í ákvörðunum stjórnvalda, þrátt fyrir að fyrirliggjandi gögn sýni fram á ofbeldi gegn þeim og börnunum hafi átt sér stað. „Sýslumenn og dómsmálaráðuneyti fella áfellisdóma yfir mæðrum og þær eru úrskurðaðar til að vera jákvæðar í garð föður heima hjá sér.“ Um fásinnu sé að ræða. „Mæðrum sem greina frá ofbeldi er gert ókleift að vernda börn sín.“
Á alþjóðlega degi Sameinuðuð þjóðanna gegn ofbeldi, þann 2. október, ákvað hreyfingin því að hefja undirskriftasöfnun til að mótmæla úrskurðum sem ynnu gegn öryggi barna. Samtökin krefjast þess að dómsmálaráðherra axli ábyrgð og tryggi vernd barna þegar kemur að réttarákvörðunum í lífi þeirra.

Setja sig upp á móti málstaðnum
Aðspurð segir Sigrún nú þegar einhverja hafa gert athugasemd við að kröfur samtakanna beinist eingöngu að úrbótum í málum þar sem feður eru gerendur. „Við þetta fólk hef ég að segja að börn sem öll eru þolendur ofbeldis af hálfu föður eiga skilið réttláta málsmeðferð jafnvel þó að „konur beiti líka ofbeldi.“ Þá sé óskiljanlegt að fólk sjái sér ekki fært að styðja málefnið af þessari ástæðu.
„Börn sem þolað hafa heimilisofbeldi eða kynferðisofbeldi eiga ekki að gjalda þess í umgengis- og forsjármálum að gerandinn sé faðir þeirra.“ Sigrún ítrekar að kynbundið ofbeldi sé beinlínis byggt inn í réttarhugsun og ákvarðanir yfirvalda þar sem mæður sem greina frá ofbeldi séu gjaldfelldar siðferðislega fyrir að bera upp ásakanir á hendur föður.
„Svona eimir enn eftir af feðraréttarhugsun og eignarréttarhugsun um börn í íslenskri lagaframkvæmd. Það er meðal annars sú hugsun sem þarf að breytast til að öllum börnum sé tryggð vernd gegn ofbeldi í sifjamálum.“
Stjórnvöld sitja aðgerðarlaus
Hún segir engar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu stjórnvalda eða ráðherra málaflokksins til að tryggja öryggi barna í ofbeldishættu við inngrip dóms- og framkvæmdarvaldsins. Sigrún tekur einnig fram að í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna komi fram að börn eigi rétt til verndar frá hverskyns ofbeldi og að stjórnvöld ættu að vinna í samræmi við það.
„Það er óverjandi háttalag framkvæmdar- og dómsvaldsins að þvinga barn með óréttmætum úrskurðum, dagsektum eða öðrum lagatæknilegum aðferðum inn í aðstæður þar sem það er beitt hverskyns ofbeldi,“ segir Sigrún.
Hundruð barna búa á ofbeldisheimilum
Þá bendir hún á að grófleg áætlun sýni fram á að um 252 umgengnismál á ári ljúki ekki með sátt hjá sýslumanni. „Til samanburðar má benda á að að samkvæmt svörum kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfs á árinu 2018 voru um 273 börn sem bjuggu á ofbeldisheimilum.“ Sú tala sé augljóslega allt of há.
Sigrún hvetur fólk til að skrifa undir rafræna undirskriftalistann og leggja hreyfingunni lið. „Ofbeldi á börnum á aldrei að líðast og það er skylda stjórnvalda að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda börn frá ofbeldi.“