Ríkisstjórn Póllands hyggst taka upp miðlægan gagnagrunn þar sem haldið verður utan um allar þunganir og fósturlát hjá konum í Póllandi. Stefnt er að því að taka skráningarkerfið upp í janúar á næsta ári, akkúrat ári eftir að tekið var upp nær algert bann við þungunarrofi í landinu sem vakti mikla óánægju innan Evrópu.

The Guardian greinir frá

Málið hefur vakið miklar áhyggjur hjá kvennahreyfingum í Póllandi sem telja að í ljósi banns gegn þungunarrofi sé markmið með skráningu þungana og fósturláta að koma upp um konur sem leita ólöglegra leiða til þungunarrofs eða rjúfi meðgöngu sjálfar.

Gagnagrunninn segir ríkisstjórn Póllands þátt í því að uppfæra og efla gagnagrunn heilbrigðiskerfisins í heild og neitar alfarið að skráningarkerfið tengist á nokkurn hátt banninu við þungunarrofi.

Pólski aktívistinn Natalia Broniarczyk segir breytingarnar snúast um að ná frekari stjórn á konum. „Þetta snýst um stjórn og það að tryggja að meðgöngu ljúki með fæðingu,“ segir hún í samtali við pólska fréttamiðilinn Wyborcza.

Boðað hefur verið til stafrænna mótmæla á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni „Mig langar að tilkynna það á kurteisan hátt að ég er ekki ólétt“. Einnig hafa pólskar konur verið hvattar til að senda notuð dömubindi, túrtappa og nærbuxur til pólska heilbrigðisráðuneytisins til að vekja aukna athygli á málstaðnum