Á miðvikudag, klukkan 19, ætlar hópur fólks frá Rússlandi sem búsett er á Íslandi og fleiri að safnast saman við rússneska sendiráðið á Túngötu til að mótmæla pyntingum á stjórnmálamanninum Alexey Navalny.

Greint var frá því fyrr í dag að Navalny sé þungt haldinn í fangelsi en hann hefur verið í hungurmótmælum og segist ekki hafa fengið viðeigandi læknisaðstoð í fangelsinu. Evrópusambandið hefur hvatt til þess að hann fái læknisaðstoð og munu utanríkisráðherrar sambandsins funda um stöðu hans á morgun. Evrópusambandið hefur ítrekað krafist þess að Navalny verði látinn laus.

Í tilkynningu kemur fram að mótmælin við sendiráðið á miðvikudaginn séu til að mótmæla pyntingum Alexey Navalny sem sé nú að svelta í fangelsi og krefjist læknisaðstoðar vegna slæmrar heilsu sinnar. Samkvæmt lögfræðingum hans og mannréttindasamtökum er hann í bráðri hættu og gæti dáið bráðlega.

Þá segir að þrátt fyrir þetta hafi yfirvöld ítrekað neitað beiðnum hans um að vera skoðaður af lækni og jafnvel handtekið sjálfboðaliða frá rússneska læknafélaginu sem komu til að aðstoða hann.

„Við krefjumst þess að Alexey Navalny verði frelsaður sem og aðrir pólitískir fangar í Rússlandi,“ segir í tilkynningunni.

Á mótmælunum verður safnað undirskriftum fyrir undirskriftalista sem síðar á að afhenda Alþingi en þar er Alþingi beðið að endurskoða samskipti við og stefnu Íslands gagnvart Rússlandi.