Fyrrum starfsmenn og velunnarar Sigluness í Nauthólsvík blása til táknrænna mótmæla í ráðhúsi Reykjavíkur fyrir borgarstjórnarfund klukkan tólf í dag. Í tilkynningu frá hópnum segir að blásið verði í neyðarflautur björgunarvesta: Þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt.

Hátt í 3.500 manns hafa þegar fréttin er skrifuð hafa skrifað undir undirskriftarlista til að mótmæla lokuninni en lokunin er hluti af hagræðingartillögum borgarinnar til að mæta um fimmtán milljarða halla reksturs hennar.

Í tilkynningu frá fyrrverandi starfsmönnum kemur fram að frá því að tilkynnt var um lokunina hafi á sjöunda tug fyrrum starfsmanna tekið höndum saman og minnt á það mikilvæga starf sem unnið hefur verið undanfarin 55 ár í Siglunesi á sviði lýðheilsu og útimenntunar barna og ungmenna.

Í hádeginu mun hópurinn mæta með björgunarvesti barna og fylla gestasæti ráðhússins til tákns um þau skertu tækifæri sem reykvísk börn munu hafa til útimenntunar verði af áformum borgarstjórnar.

,,Þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt“ neyðarflaut mun heyrast sem neyðarkall að láta af þessum áformum.