Fjöldi félagasamtaka hafa boðað til mótmælafundar á morgun á Austurvelli þar sem komu varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, til Íslands, verður mótmælt. Mótmælin hafa þau titlað „Partý gegn Pence: : stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð“.
Í tilkynningu frá samtökunum sem standa að mótmælunum kemur fram að bæði stefna og framkoma varaforsetans og ríkisstjórnar hans sé í andstöðu við skoðanir og gildi fjölmargra Íslendinga. Af því tilefni hafi þau tekið sig saman og boðað til útifundar á morgun, miðvikudag, klukkan 17.30.
Fundurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir fólk úr öllum áttum til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinsegin fólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk. Félagasamtökin sem að fundinum standa vinna einmitt að þessum málaflokkum.
Flutt verða fjögur stutt ávörp á fundinum. Ræðumenn verða Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fyrrverandi formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni og Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur. Þá verður einnig boðið upp á tónlistaratriði.
Samtökin hvetja almenning til að mæta á Austurvöll til að láta skoðun sína í ljós.
Pence kemur til landsins í dag og fundar með utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Hann framlengdi dvöl sína á Íslandi svo hann gæti hitt forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, en hún er stödd á fundi í Svíþjóð á ársþingi Norrænu verkalýðshreyfingarinnar. Þau munu funda í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.
Nánari upplýsingar um útifundinn er að finna hér á Facebook.