Boðað hefur verið til mótmæla til stuðnings Palestínu undir yfirskriftinni Stöðvum blóðbaðið í dag, laugardag, á Austurvelli klukkan 13.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að í síðustu viku hafi Ísrael ráðist á al-Aqsa moskuna á síðustu dögum heilagasta mánaðar múslima og árásirnar hafi staðið yfir síðan.

„Nú hefur Ísrael ákveðið að þjóðernishreinsa hverfið Sheik Jarrah í Austur-Jerúsalem, svæði sem er hertekið og Ísrael hefur enga réttmæta lögsögu yfir,“ segir Yousef Ingi Tamimi, einn af skipuleggjendum mótmælanna.

Það er krafa mótmælenda að íslensk stjórnvöld grípi til tafarlausra aðgerða og leggi viðskiptabann á Ísrael.