Þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nánar tiltekið Klaustursarmur Miðflokksins, hafa sent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis bréf þar sem fram kemur að tillögur Steingríms um að þingið kjósi viðbótarvaraforseta standist ekki skoðun.

Þingfundur er hafinn, en Alþingi mun í dag kjósa tvo tímabundna varaforseta í sérstaka forsætisnefnd. Það er að segja ef að kosningin verður leyfð, þingmennirnir fjórir telja hana vera ólögmæta. Í bréfi sem sent var á forseta þingsins fyrr í dag er vísað til bréfs  sem þingmennirnir sendu Steingrími þann 17. janúar sem hópurinn segja forseta þingsins hafa kosið að virða ekki svars.

Þá segir að málsmeðferðin, sem kemur í kjölfar Klaustursmálsins, sé andstæð 2 málsgrein 17. greinar siðareglna fyrir alþingismenn, en þar er mælt fortakslaust fyrir um að þingmaður sem sakaður er um að hafa brotið siðareglur skuli ávalt eiga þess kost að koma fram sjónarmiðum sínum og upplýsingum.

Segja ætlunina að halda þeim í myrkrinu

„Þetta er ekki aðeins ámælisvert heldur er þetta einnig til þess fallið að gera meðferð málsins óvandaðri, líkt og lýst er í bréfinu frá 17. jan. sl. Erfitt er að taka þessu sem öðru en vísbendingu um óvild forseta í okkar garð. Sama má segja um ítrekaða vanrækslu að verða við beiðni okkar um afhendingu gagna sem upphaflega var sett fram 13. des,“ segir í bréfinu.

„Þótt ætlunin sé greinilega að halda okkur í myrkrinu um hvað þú sérð fyrir þér fram undan teljum við rétt að koma hér á framfæri okkar sjónarmiðum um þá hugmynd um „viðbótarvaraforseta“ sem höfð hefur verið eftir þér í fjölmiðlum. Skv. því sem þar greinir virðist hugmynd þín vera sú að þingið kjósi svonefnda „viðbótarvaraforseta“ úr hópi þingmanna sem sagðir eru „hæfir til umfjöllunar“ um mál okkar. Þeir myndi síðan „eins konar undirforsætisnefnd“ og eigi að fjalla um mál okkar. Þetta verði gert „með afbrigðum frá þingsköpum.“

Þá mótmæla þingmenn lögmæti tillögunnar og vekja athygli á að siðareglur fyrir alþingismenn fela forsætisnefnd meðferð og afgreiðslu mála. „Hvergi í siðareglunum er að finna heimild til að víkja frá þessu og fela öðrum nefndum meðferð og afgreiðslu þessara mála. Tillaga um að sérstök nefnd þingmanna sem eru titlaðir „viðbótarvaraforsetar" er því andstæð ákvæðum siðareglna.“ Breyti því engu þótt nefndin sé sögð „eins konar undirforsætisnefnd.“

Að lokum segjast þingmennirnir vilja vekja athygli á siðferðislegri og lagalegri þýðingu þess að málsmeðferð kvartana gegn þingmönnum fari fram skamkvæmt „fyrirfram ákveðnum og fyrirsjáanlegum leikreglum. Slík málsmeðferð hefur verið talin aðalsmerki réttarríkisins og réttlátrar og sanngjarnrar málsmeðferðar.“