Stúdentaráð leggst gegn öllum hækkunum vaxta á námslánum og gerir verulegar athugasemdir við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á vaxtakjörum námslána í frumvarpsdrögum menntamálaráðherra um breytingar á námslánakerfinu. Ráðið telur þó að fyrirhuguð innleiðing námsstyrkja sé skref í rétta átt. Umsögn Stúdentaráðs um frumvarpsdrögin var skilað í Samráðsgátt stjórnvalda í dag.

Aðallega á móti vaxtahækkunum

Verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd mun núverandi 1% vöxtum verða skipt út fyrir breytilega vexti. Stúdentaráð bendir á að á breytileg vaxtakjör leggst vaxtaálag sem stjórn ákveður á hverju ári. Stúdentarnir segja þessa breytingu fela í sér aukna óvissu fyrir lánþega auk þess sem vænta megi þess að vextir lánanna hækki.

Því vill ráðið að sett verði ákveðið hámark á vexti námslána til að lágmarka þá áhættu sem fellur á herðar stúdenta við lántöku. „Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra skylt að skipa nefnd sem endurskoðar fyrirkomulag vaxta ef verðtryggðir vextir fara upp fyrir 4% eða óverðtryggðir yfir 9%. Það ferli er ófullnægjandi, flókið og ófyrirsjáanlegt,“ segir í ályktun sem ráðið sendi frá sér.

Á fundi Stúdentaráðs Háskóla Íslands í gærkvöldi var einróma samþykkt umsögn ráðsins um nýtt frumvarp um Stuðningssjóð...

Posted by Stúdentaráð Háskóla Íslands on Tuesday, July 23, 2019

Sjóðurinn verði að stuðla að jöfnuði

Þá spyr Stúdentaráð hvort félagslegt jöfnunarkerfi á borð við námslánakerfið eigi að standa undir sér, líkt og hækkun vaxta stuðlar að, eða hvort sjónarmið um þjóðhagslega hagkvæmni náms eigi ekki að vega þyngra.

Stúdentaráð telur þá að tekjutengd endurgreiðsla lána sé mikilvæg svo að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu sem jöfnunarsjóður. Í frumvarpinu á hún ekki við þá sem ljúka námi 35 ára eða eldri. Of fastar skorður eru þar settar á að mati ráðsins sem vill í staðinn rýmka rétt lánagreiðenda til tekjutengdra afborgana.

Þá er gerð athugasemd við við hlutverk stjórnar sjóðsins í frumvarpinu; of margt velti á samþykkt hennar en mörg ákvæði frumvarpsins fela aðeins í sér heimild stjórnar til að veita viss lánþegum fríðindi. Þar má helst nefna mánaðarlegar greiðslur námslánanna sem stjórnin hefur heimild til að veita og niðurfellingu láns við námslok.

Innantóm nafnabreyting

Þá er gerð athugasemd við að nafnabreyting sjóðsins og orðalagsbreyting á hlutverki hans séu ekki efnisbreytingar. Lánasjóður íslenskra námsmanna á að verða Stuðningssjóður íslenskra námsmanna en ráðið bendir á að enn mun stór hluti námsmanna eingöngu vera lántakar hjá sjóðnum. Þá séu þeir sem fá boðaða niðurfellingu á 30% lánanna enn á lánum hjá sjóðnum fyrir 70% höfuðstólsins. Sjóðurinn sé því vissulega enn lánasjóður.

Þá vill ráðið að framfærslulán og grunnframfærsla verði tekin til endurskoðunar svo að stúdentar geti framfleytt sér á meðan á námi stendur. „Niðurfelling hluta höfuðstóls er mikilvægasta kjarabót sem frumvarpið boðar en til þess að hún geti orðið að veruleika fyrir sem flesta stúdenta skortir raunverulegar breytingar á hlutverki og markmiði sjóðsins,“ segir í ályktuninni.