Samtök um náttúrvernd á Norðurlandi (SUNN) mótmæla áformum um virkjun á vegum Einbúavirkjunar ehf. í Skjálfandafljóti.

Einbúavirkjun yrði fyrsta virkjunin í Skjálfandafljóti, staðsett sjö kílómetrum ofan við Goðafoss, sem var friðlýstur í júní í fyrra. Virkjunin tæki Skjálfandafljót úr farvegi sínum á 2,6 kílómetra kafla, með stíflu þvert yfir fljótið.

Hilm­ar Ágústs­son og Krist­jána Gunn­ar Rík­harðs­son, eigendur Einbúavirkjunar ehf., fyr­ir­huga 9,8 MW rennsl­is­virkjun í landi jarð­anna Kálf­borg­arár og Ein­búa í Bárð­ar­dal, rétt undir rammaáætlun sem tekur til virkjanakosta 10MW og yfir. Svartárvirkjun átti einnig að verða 9,8 MW en SUNN segja menn reyni að nýta sér þetta glufu í lögum til að fara framhjá rammaáætlun.

“Virkjun myndi algerlega breyta ásýnd þessarar sveitar með stíflu og miklum veituskurðum skammt ofan Goðafoss í Bárðardal. Við ætlum að standa vörð um Skjálfandafljót”, segir Harpa Barkardóttir, stjórnarformaður samtakanna.

Goðafoss.
Fréttablaðið/GVA

Áhrif á fljótið „allt til sjávar“

Vegurinn frá Goðafossi að Aldeyjarfossi liggur í gegnum áætlað virkjanasvæði. Veitumannvirki og stöðvarhús virkjunarinnar verða grafin í gegnum hraunið en SUNN segja samspil Skjálfandafljót við Bárðadalshraun mynda einstaka náttúruheild með mikið verndargildi.

Telja þau að virkjunin mun hafa neikvæð áhrif á dýralíf, svo sem á nálægt fálkaóðal, aðra fugla og fiskgengd. Vitna þau í Náttúrufræðistofnun Íslands um að rannsókn á áhrifum á straumandarstofn sé ábótavant og að virkjunin muni að öllum líkindum hafa áhrif á fljótið allt til sjávar.

Í júlí í fyrra beindi Skipulagsstofnun því til sveitarfélagsins að setja skilyrði í framkvæmdaleyfi um vöktun á árangri aðgerða vegna áhrifa á setflutninga/aurburð, vöktun á laxagegnd í Kálfborgará og vöktun á farleiðir straumandar ásamt öðrum þeim mótvægisaðgerðum og vöktun sem tiltekin eru í framangreindum gögnum.

Aldeyjarfos.
Mynd úr safni

SUNN telur að ekki sé grundvöllur fyrir veitingu framkvæmdaleyfis virkjunarinnar og að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar beri að hverfa frá skipulagsáformum. Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar Þingeyjarsveitar vegna virkjunar verða kynntar af framkvæmdaraðilum og ráðgjöfum þeirra næstkomandi fimmtudag þann 28. janúar kl. 16 í Bárðardal og í streymi.