Frumvörp frá ríkisstjórninni um Þjóðgarðastofnun annars vegar og hálendisþjóðaer mótmælt harðlega af hreppsnefnd Ásahrepps.Í umsögn mótmælir hreppsnefndin sérstaklega fyrirhuguðum heimildum um kaup og eignarnám sem eru í frumvarpinu um Þjóðgarðastofnun.

„Þessari grein og hugmyndafræðin sem liggur að baki er óásættanleg. Í þessari grein kemur fram heimild til Þjóðgarðastofnunar, að fengnu leyfi ráðherra, til að taka eignarnámi lönd mannvirki og réttindi til þess að framkvæma friðun,“ segir hreppsnefndin. Þótt vísað sé í ákvæði jarðalaga um að óheimilt sé að skilja hlunnindi frá jörð sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu að gera megi á því undantekningar.

„Hér er verið að veita einstakri stofnun heimild, til dæmis til að kaupa nytjarétt sem hefur meðal annars verið lögvarinn með úrskurði Óbyggðanefndar þegar um er að ræða afrétti á þjóðlendum,“ segir hreppsnefndin. Ljóst sé, með úrskurði óbyggðanefndar, að óbeinum eignarrétti nytjarétthafa á afréttum verði ekki hnikað nema með eignarnámi.

„Hér liggur það fyrir, svart á hvítu, að það er hluti af hugmyndafræðinni sem liggur að baki þessum drögum að frumvarpi. Þessum hugmyndum er mótmælt harðlega og þess krafist að verði brott felld úr þessum drögum að frumvarpi. Ásættanlegt gæti talist að Þjóðgarðastofnun mætti kaupa upp slíkar eignir ef handhafi þeirra eigna vildi selja, en að færa slíkt vald til stjórnenda einnar stofnunar, með samþykki ráðherra, er algerlega ótækt,“ segir Áshreppur.

Frumhlaup sem tryggir átök og skiptar skoðanir

Þá segir hreppsnefndin langt í frá að forvinnu sé lokið. „Með slíku frumhlaupi, að fara fram með þessi frumvörp svo illa undirbúin mun tryggja átök og afar skiptar skoðanir um réttmæti þessarar vegferðar,“ segir í umsögninni. Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu verði skipulagsvald sveitarfélaga skert til mikilla muna og fært til ríkisstofnunar.

„Með þessum frumvörpum er verið að færa stjórn og umráð yfir 40 prósent Íslands til örfárra aðila innan ríkisstofnunar. Þetta er nokkuð sem hreppsnefnd Ásahrepps getur engan veginn sætt sig við,“ segir hreppsnefndin. Það sé æði þreytandi að horfa upp á að til nokkurra áratuga hafi verið vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga með einum eða öðrum hætti.