Ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalistaflokksins, auk hreyfingarinnar Gulu vestin og Jæja-hópsins hafa boðað til mótmæla við Austurvöll í dag. Mótmælendur krefjast þess að Sigríður Á. Andersen segi af sér. 

Mannréttindadómstóll Evrópu(MDE) birti í dag úrskurð sinn vegna skipunar Sigríðar Á. Andersen á dómurum við Landsrétt og komst að því að með skipuninni hafi hún brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. 

Íslenska ríkið er bótaskylt vegna málsins. Sigríður telur stöðu sína vera óbreytta þrátt fyrir dóminn og segir það koma til greina að skjóta niðurstöðunni til yfirdóms MDE.

Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan hálf fimm í dag vegna þessa þar sem afsögn Sigríðar er krafist. Yirskrift mótmælanna er „Mælirinn er fullur: Sigríði Andersen burt!“ Á annað hundrað hafa boðað komu sína, en rúmlega sjö hundruð kveðast áhugasamir um þau. 

Í texta við mótmælin kemur fram að afsagnar Sigríðar sé krafist í kjölfar dóms MDE og að dómsmálaráðherra sem grafi undan dómskerfinu verði að víkja. „Mætið á Austurvöll klukkan 16:30 fyrir utan Alþingishúsið með banana, tákn þess að það kallast bananalýðveldi þar sem hagsmunir yfirstéttarinnar eru alltaf teknir fram yfir hagsmuni almennings og mannréttindi. Ekki henda banananum á eftir, borðið hann.“

Í kjölfar mótmælanna hefjast önnur þar sem aðgerðum lögreglunnar gegn mótmælendum á Austurvelli í gær verður mótmælt. Þetta eru fimmtu mótmælin á skömmum tíma þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólks krefst áheyrn stjórnvalda.