Alls hafa nú nærri 600 manns skrifað undir undir­skriftalista þar sem kallað er eftir því að hinum 26 ára gamla Amin Ghaysza­deh verði ekki vísað úr landi til Grikk­lands. Þar er kallað eftir því að Út­lendinga­stofnun endur­skoði úr­skurð sinn.

Hildur Maral hóf undir­skrifta­söfnunina fyrir Amin í fyrra­dag. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Hildur að hún þekki hann ekki per­sónu­lega en hafi viljað styðja við hann með þessum hætti. Enn er hægt að skrifa undir söfnunina hér.

Á 14. degi hungurverkfalls

Amin er nú á 14. degi hungur­verk­falls til að mótmæla yfirvofandi brottvísun sinni. Í við­tali við Frétta­blaðið í fyrra­dag greindi hann frá því að hann ætlaði einnig að hætta að drekka vatn og að honum væri illt í hjartanu.

„Ég vil ekki fara til Grikk­lands og vil frekar deyja hér en í Grikk­landi,“ sagði Amin þá.

Kæru­nefnd út­lendinga­mála kvað upp úr­skurð sinn í máli Amin þann 11. júlí þar sem nefndin komst að sömu niður­stöðu og stofnunin um að mál Amins yrði ekki tekið til efnis­með­ferðar vegna þess að hann hafi áður hlotið vernd í Grikk­landi. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­manni Amin, Magnúsi Davíð Norð­dahl, var sótt um frestun réttar­á­hrifa úr­skurðarins á meðan málið yrði rekið fyrir dóm­stólum þann 29. júlí. En um miðjan ágúst var þeirri beiðni hafnað.

Amin hóf hungur­verk­fall sitt stuttu eftir að ljóst var að hann hafði fengið endan­lega neitun frá Út­lendinga­stofnun um miðjan ágúst.

Skoða hvort tilefni er til endurupptöku

Eins og greint hefur áður verið frá áður þá á Amin við ýmis and­leg veikindi að stríða. Hann hefur í það minnsta þrisvar reynt að taka sitt eigið líf. Hann er einnig mjög stressaður og hefur glímt við svefn­erfið­­leika. Á­­stæður slæmrar and­­legrar líðan Amin eru marg­vís­­legar en þar skiptir þó ef­­laust máli að hann var sem barn beittur kyn­­ferðis­­legu of­beldi og fékk hjarta­á­­fall sem táningur.

Amin hóf með­ferð eftir að hann kom hingað til lands og telur sjálfur mikil­vægt að hann fái að halda henni á­fram. Kæru­nefnd hefur komist að þeirri niður­stöðu að Amin hefur sér­­þarfir sem taka þarf til­­lit til, en að sér­þarfir hans séu ekki þannig að hann geti ekki hlotið við­eig­andi að­stoð í Grikk­landi.

„Við erum að skoða hvort það sé til­efni til að fara fram á endur­upp­töku byggt á á breyttum heilsu­fars­á­stæðum og munum væntan­lega leggja fram slíka beiðni á næstu dögum,“ segir Magnús í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.