Hópur fólks hefur skrifað undir undirskriftalistaþar sem komu Piu Kjærsgaard til landsins er mótmælt og afsökunarbeiðni Steingríms J. Sigfússonar, forseta alþingis, fordæmd. Nú þegar hafa 83 skrifað undir og sumir skrifað athugasemdir til þess að gera betur grein fyrir skoðun sinni.
„Við megum aldrei sofna á verðinum gagnvart pólitískum og samfélagslegum öflum sem vinna gegn eða grafa undan almennum mannréttingum og lýðræði. Þess vegna mótmælum við í hvert sinn sem rasistar og hálf-fasistar kveða sér hljóðs á opinberum vettvangi. Allir menn eru jafnir óháð litarhætti, þjóðerni, kynferði, eða kynhneigð,“ skrifar einn mótmælandi í athugasemd sinni.
Gagnrýnd fyrir útlendingaandúð
Kjærsgaard hélt erindi á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum á miðvikudaginn en sú ákvörðun var mjög umdeild. En hún er einn stofnandi Danska þjóðflokksins sem er sagður reka harða innflytjendastefnu og hefur flokkurinn sem og Kjærsgaard verið gagnrýnd fyrir útlendingaandúð.
Þó hefur verið bent á að Kjærsgaard hafi komið hingað fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar sem fulltrúi gagnaðila af fullveldissamningnum og hafi ekki haft neitt með hennar pólitísku skoðanir að gera.
Þrátt fyrir það hefur koma hennar til landsins valdið talsverðum usla, Íslenskir þingmenn sem og almennir borgarar mótmæltu komu hennar. Þingflokkur Pírata kaus að hundsa dagskránna í heild sinni en þingmenn Viðreisnar, Samfylkingarinnar og tveir Þingmenn Vinstri grænna kusu að klæðast límmiðum sem á stóð „Nej til Racism“ eða „Nei við kynþáttahatri“.
Harmaði mótmælin
Steingrímur J. Sigfússon harmaði mótmælin og sagði þau hafa varpað skugga á hátíðardagskrá Alþingis. Í kjölfarið skrifaði hann Kjærsgaard afsökunarbréf þar sem hann fullyrðir að stór meirihluti Íslendinga álíti það „forkastanlegt“ að sýna danska þingforsetanum slíka vanvirðingu.
Í texta undirskriftalistans segir að með því að skrifa undir listann mótmæli viðkomandi þátttöku Kjærsgaard í dagskrá hátíðarfundar Alþingis, vegna hatursfullrar orðræðu sem hún stendur fyrir. Afsökunarbréfi Steingríms er einnig mótmælt „við mótmælum afsökunarbréfi Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann segist tala fyrir hönd þjóðarinnar, við erum verulega ósammála þeirri staðhæfingu að meirihluti Íslendinga hafi þótt mótlætið sem þú varst fyrir forkastanlegt.“