Lögreglan í Mjanmar beitti skotvopnum og táragasi gegn mótmælendum í gær sem flykktust ótrauðir út á götur landsins þrátt fyrir mannskæðar aðgerðir lögreglunnar fyrr í vikunni.

Samkvæmt fulltrúa Sameinuðu þjóðanna voru að minnsta kosti 38 skotnir til bana á miðvikudaginn sem var blóðugasti dagur mótmælanna til þessa. Að minnsta kosti 54 látið hafa látið lífið í mótmælunum til þessa og hátt í tvö þúsund verið handteknir, þar á meðal 29 blaðamenn.

Mótmælin hófust í byrjun febrúar eftir að her landsins framdi valdarán og handtók Aung San Suu Kyi, leiðtoga landsins og fjölda samflokksmanna hennar. Herstjórnin sakaði flokk Suu Kyi, NLD, um að hafa staðið að stórtæku kosningasvindli í fyrra en ekki hafa verið færðar sönnur á það.

Á þriðjudaginn sást Suu Kyi, sem er 75 ára gömul, í fyrsta skipti í mánuð í upptöku frá réttarhöldum þar sem hún situr undir ásökunum herstjórnarinnar. Hún er sökuð um ólögleg fjarsamskipti og að ala á óþarfa ótta.

Mótmælendur í Mjanmar hafa krafist þess að herstjórnin víki og Suu Kyi verði sleppt úr haldi en herstjórnin hefur lýst því yfir að boðað verði til sanngjarnra kosninga að ári þegar ólgu linni.

„Her Mjanmar verður að hætta að myrða og fangelsa mótmælendur,“ sagði Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu. „Það er viðurstyggilegt að öryggissveitir beiti skotvopnum á friðsama mótmælendur um allt land.“

Þá hvatti Linda Thomas-Greenfield, nýr sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, alþjóðasamfélagið á mánudag til að auka þrýsting á herstjórnina.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað her Mjanmar við að ef ofbeldisfullum aðgerðum lögreglunnar gegn mótmælendum linni ekki muni alþjóðasamfélagið bregðast við með refsiaðgerðum og þvingunum. Herstjórnin svaraði að Mjanmar væri vant slíkum aðgerðum og myndi aðlagast þeim.

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.