Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) leggst gegn því að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnarlyfjum. Frumvarp heilbrigðisráðherra þess efnis var lögfest árið 2018 eftir margra ára baráttu fyrrnefndra stétta. Ein helsta ástæðan fyrir lagasetningunni var að auka aðgengi kvenna að þjónustunni, sérstaklega ungra kvenna, og að nýta fagþekkingu stéttanna. Töluverður læknaskortur á landsbyggðinni spilar einnig inn í.

Nú stendur til að útfæra frumvarpið með reglugerð, meðal annars hvaða lyfjum megi ávísa, skilyrði, námskröfur, gjaldtöku og eftirlit.

FÍFK hefur margsinnis sent inn umsagnir um málið, fyrst árið 2007. Félagið er mótfallið breytingunni og telur þær óþarfar. Telur félagið að um grundvallarbreytingu sé að ræða, hvað varðar réttindi og ábyrgð á lyfjaávísunum.

Alexander Smárason, formaður félagsins, vildi ekki ræða efni málsins þegar Fréttablaðið leitaði eftir því. Vísaði hann í umsagnirnar og greinargerðirnar sem félagið hefur sent inn. Í þeirri nýjustu kemur fram að nauðsynlegt sé að reglugerðin sér skýr fyrst lögin hafi þegar verið samþykkt og jafnframt bent á annmarka.

„Að mati FÍFK er ekki skýrt í lögunum og þá þessari reglugerð, hver ber læknisfræðilega ábyrgð á lyfjaávísun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra,“ segir í umsögninni.

Hingað til hafi ávísun lyfs verið á ábyrgð þess sem skrifar undir. Ókönnuð séu áhrifin sem breytingin hafi og hvorki rannsóknir né töluleg gögn sýni fram á að breytingin sé nauðsynleg. Fóstureyðingar séu fáar á Íslandi miðað við önnur lönd og þunganir kvenna undir tvítugu eitt til tvö prósent undanfarin ár.

Þá telur félagið óeðlilegt að ekki séu sett fram frekari tilmæli um viðbótarnám og nauðsynlegt sé að Embætti landlæknis skoði námskröfurnar sérstaklega. Þetta er sama stef og kemur fram í fyrri umsögnum félagsins, að læknisfræðinám innihaldi mun meiri lyfjafræði en hjúkrunarfræðinám.

Læknafélag Íslands tekur undir gagnrýni FÍFK og formaðurinn, Reynir Arngrímsson, segir að fleiri læknafélög geri það líka, til dæmis heimilislækna.

„Varðandi ábyrgðina þá stangast þetta á við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu þar sem segir að yfirlæknar beri faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyra,“ segir hann. Störf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra heyri ekki undir yfirlækna samkvæmt þessu og yfirlæknar geti því ekki orðið bakhjarlar þeirra samkvæmt lögunum.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er á öðru máli og telur formaðurinn, Guðbjörg Pálsdóttir, að breytingin sé til mikils ábata fyrir konur. „Við erum með bæði framhaldsmenntaða heilsugæsluhjúkrunarfræðinga og sérfræðinga sem hafa til þess reynslu, menntun og fagþekkingu að gera þetta og eru að ráðleggja um getnaðarvarnir,“ segir hún. „Mjög oft eru það hjúkrunarfræðingar sem ráðleggja og læknirinn sem fyllir út lyfseðilinn.“

Ítrekar hún að með þessari breytingu felist það að þeir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem fengju leyfi til ávísana myndu fara í gegnum sérstakt námskeið.

„Ég veit ekki hvað ætti að vera svona sérstakt hér á landi, því annars staðar í heiminum hefur þetta gengið mjög vel upp. Þetta hefur bæði ódýrari og skilvirkari þjónustu í för með sér,“ segir Guðbjörg. „Ég held að andstaðan sé tilkomin vegna ótta við breytingar og þetta eru vissulega tímamótabreytingar.“