Samkvæmt nýrri rannsókn Imperial College og Ipsos MORI í Bretlandi minnkaði hlutfall fólks með mótefni gegn COVID-19 um 26 prósent á þremur mánuðum. Mest lækkaði hlutfallið hjá öldruðum, 76 ára og eldri, alls um tæp 40 prósent en aðeins um 15 prósent hjá 18 til 24 ára.

Rannsóknin var mjög umfangsmikil og tóku alls 365 þúsund manns þátt á þremur tímapunktum. Vísindamennirnir sem stóðu að henni viðurkenna að hún sé ekki fullkomin því að ekki var mælt hjá sama fólkinu í öll skiptin og aðeins var IgG mótefni mælt. „Þessi stóra rannsókn sýnir að hlutfall þeirra sem hafa mótefni hefur minnkað með tímanum,“ segir prófessorinn Helen Ward, einn rannsakendanna.

Þátttakendur fengu senda fingurblóðprufu á 12., 18. og 24. viku eftir hápunkt faraldursins í vor. Í júní mældist hlutfallið 6 prósent, síðan 4,8 prósent og að lokum 4,4 prósent í september. Flestir mældust með mótefni í Lundúnum og hlutfallið hjá heilbrigðisstarfsfólki hélst stöðugt í öll þrjú skiptin.

James Bethell, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir rannsóknina afar mikilvæga sem muni nýtast ríkisstjórninni í ákvarðanatöku sinni. „Það er mikilvægt að fólk skilji hvað þetta þýðir fyrir það sjálft, að mælast með mótefni þýðir ekki að þú sért ónæmur fyrir COVID-19,“ segir Bethell. Ætti fólk því að fylgja leiðbeiningum stjórnvalda til hins ítrasta.

Vísindamenn Imperial College segja að fleiri rannsókna sé þörf, svo sem að hversu stóru leyti IgG verji fólk fyrir sýkingu. Ónæmi T frumna geti einnig spilað stóran þátt í jöfnunni.

1 Þórólfur.jpg

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir

„Sú rannsókn sem var gerð hér á landi sýndi að mótefni lækkaði ekki nema að mjög litlu leyti. Við eigum líka að taka fullt mark á okkar niðurstöðum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og vísar þar til mælingar Íslenskrar erfðagreiningar. Voru þar mæld IgM, IgA og IgG mótefni hjá rúmlega 30.500 einstaklingum í 4 mánuði. Aðferðafræði rannsakenda sé mismunandi sem skýri ólíka niðurstöðu. „Mótefni minnka alltaf eitthvað, eftir allar sýkingar og bólusetningar. Málið snýst um hvort það minnki nógu mikið til að fólk geti smitast aftur,“ segir hann.

„Það verður að koma í ljós,“ segir Þórólfur aðspurður um hversu lengi bólusetningar dugi minnki mótefnið með tímanum. Það er hvort fólk þurfi að fara margsinnis í bólusetningu gegn COVID-19. Meðal þess sem þurfi að rannsaka sé hversu lengi mótefni vari í líkamanum eftir bólusetningu miðað við eftir COVID-19 sýkingu. Þetta tvennt þurfi ekki endilega að fara saman.