Borið hefur á svo­kölluðum mót­efna­hroka, sjálfs­öryggi þeirra sem eru með mót­efni gegn CO­VID-19, á sund­stöðum landsins. Þetta hefur hins vegar ekki verið vanda­mál í Vestur­bæjar­laug, sam­kvæmt Önnu Kristínu Sigurðar­dóttur, for­stöðu­manni laugarinnar.

Anna segist hafa heyrt af því að borið hafi á því á sumum sund­stöðum borgarinnar að fólk í hópi bólu­settra hafi ekki fylgt sótt­varnar­reglum. „En það hefur ekki borið á því í Vestur­bæjar­laug og heldri borgarar verið til fyrir­myndar,“ segir hún. Eins og alþjóð veit er bólusetningum að mestu lokið í elstu aldurshópum.

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hefur í­trekað sagt að þeir sem eru með mót­efni gegn CO­VID-19 geti samt sem áður borið smit. Sigur­björg Þor­steins­dóttir ó­næmis­fræðingur hefur áður sagt að bólu­settir geti smitast að nýju. Þótt þeir beri mun minna af veirunni og smiti mun síður séu þeir þó smitandi.

Anna segir að þegar sund­laugar hafi opnað aftur eftir lokanir hafi hún heyrt að eitt­hvað borið á þessu. „Af eldra fólki sem teldi sig undan­skilið sótt­vörnum og það olli starfs­fólki ó­þægindum, en það hefur alls ekki borið á þessu í Vestur­bæjar­lauginni,“ segir Anna.

Nýjar sótt­varnar­reglur tóku gildi á mið­nætti. Sund­staðir mega nú taka á móti 75 prósent af leyfi­legum há­marks­fjölda gesta. Anna segir mikla til­hlökkun meðal starfs­fólks að fá að taka á móti fleirum ekki síst vegna þess að afar sól­ríkt hefur verið í maí.

„Það vilja allir komast í sund, enda gott veður í sundi þó það sé kalt. Sumarið kemur alltaf að­eins fyrr í laugarnar,“ segir Anna létt í bragði.