Fólki með mót­efni vegna fyrri CO­VID-19 sýkinga sem mætt hefur í opna bólu­setningu í Laugar­dals­höll hefur verið snúið við. Sam­kvæmt Ragn­heiði Ósk Er­lends­dóttur, fram­kvæmda­stýru hjúkrunar hjá Heilsu­gæslunni, hafa verið þó nokkur slík til­vik en beðið er leiðbeininga frá Þórólfi vegna bólusetninga fyrir þann hóp.

Bólu­sett er með bólu­efni Pfizer í dag. Að sögn Ragn­heiðar hefur vel gengið nú í morgun, en strika­merkaskannar biluðu lítil­lega í morgun og or­sökuðu smá­vægi­legar tafir. Þess utan hefur vel gengið og segir Ragn­heiður að vel sé mætt.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá var opið boð í Laugar­dals­höll með bólu­efni Jans­sen síð­degis í gær. Ruku 1500 skammtar út á rúm­lega tveimur tímum. Þó nokkrir með mót­efni vegna eldri CO­VID-19 sýkinga mættu í höllina, en var snúið við.

„Við erum ekki komin með leið­beiningar fyrir þennan hóp. Sótt­varna­læknir hefur ekki gefið það út enn­þá,“ segir Ragn­heiður.

„Það er ljóst að þessi hópur á að fá bólu­setningu en það er ekki vitað hvaða efni og hversu marga skammta, og hann er enn að velta þessu fyrir sér en við erum að vona að við fáum leið­beiningar fyrir þennan hóp bara mjög bráð­lega, því hann er svo­lítið að banka á dyrnar hjá okkur,“ segir Ragn­heiður.

Margir hafi sam­band og óski upp­lýsinga, en fátt sé um svör á þessari stundu. Ragn­heiður segir að ein­staklingar hafi ekki tekið því illa að vera neitað um bólu­setningu í höllinni.

Hún segir að málið snúi líka að vott­orðum og þá sér­stak­lega hjá þeim sem bara hafa fengið greiningu í gegnum já­kvæða mót­efna­mælingu. „Og á því ekki já­kvætt PCR próf og þá er það í vand­ræðum með að fá ein­hvers­konar vott­orð, sem að gagnast ef það ætlar að fara er­lendis. Þannig það þurfa að fara að koma ein­hverjar leið­beiningar um þetta.“