Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók það stóra skref að hafa samband við blóðmóður sína fyrir nokkrum misserum og eftir að hann fór að kanna rætur sínar hefur hann uppgötvað fjöldann allan af ættingjum. Guðlaugur var ættleiddur nánast við fæðingu en það var ekki fyrr en eftir hvatningu frá eiginkonu hans að hann fór að kanna uppruna sinn. Nú veit hann hversu mikið ættleiðingin hefur mótað hann sem manneskju og hans pólitísku sýn.

„Ég er afskaplega lánsamur með það uppeldi sem ég fékk og þau gildi sem ég ólst upp við. Að horfa á alla jafnt, sýna ráðdeild og sýna djörfung. Það er lán að alast upp við þessar aðstæður, að fá stuðning og umhyggju. Ég hef ekki verið að vekja sérstaka athygli á þessu en það er mikilvægt að fólk viti að þetta fyrirkomulag er gott og veitir börnum tækifæri við vissar aðstæður. Fólk gerir oft ráð fyrir því að það hafi verið hræðilegt að vera ættleiddur en það er ekki svoleiðis, þvert á móti. Ég er þakklátur fyrir að hafa alist upp hjá fólki sem beið eftir mér og veittu mér ómælda ást og umhyggju. Mér finnst blóðforeldrar mínir, þá sérstaklega móðir mín, hafa gert alveg hárrétt í þessum aðstæðum. Það hefur ekki verið auðveld ákvörðun.“

Jólabarnið

Foreldrar hans, Þórður Sigurðsson og Sonja Guðlaugsdóttir, höfðu um árabil reynt að eignast barn en ekki tekist. Það lá fyrir að blóðforeldrar hans yrðu ekki saman, blóðmóðir hans átti barn fyrir og aðstæður hennar á þeim tíma leyfðu ekki annað barn. „Það var í gegnum sameiginleg tengsl sem þetta kom til. Vinafólk foreldra minna þekktu til og hafði milligöngu um þetta.“

Stórfjölskyldan tók hlýlega á móti honum og því sá hann ekki ástæðu til að hafa samband við blóðfjölskyldu sína fyrr en á fullorðinsaldri.
Mynd úr einkasafni.

Guðlaugur er fæddur 19. desember 1967. „Ég var kominn til foreldra minna í Borgarnes rétt fyrir jólin, svona jólabarn.“

Eiginkona Guðlaugs, Ágústa Johnson, hvatti hann eindregið til að hafa samband við blóðfjölskyldu sína. „Ég er þakklátur henni fyrir það og mjög margt annað. Það var mjög erfitt að finna rétta daginn til að gera þetta. Þeir sem þekkja mig vita að ég á auðvelt með að ganga að fólki og spjalla við það, en þetta var erfitt. Þetta er ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi.“ Svo kom sá dagur að hann fór í heimsókn til blóðmóður sinnar. „Ég kynnti mig fyrir henni. Auðvitað vissi hún um mig og viðtökurnar voru hlýjar. Ég er mjög stoltur af henni, hún hefur staðið sig afskaplega vel og ég er henni þakklátur fyrir að hafa gefið mér þau tækifæri sem ég fékk við ættleiðinguna.“

Líkur blóðföður sínum

Guðlaugur viðurkennir að hann hefði átt að taka skrefið miklu fyrr. „Þó að ég hafi alltaf vitað þetta þá er maður í sínum heimi og líður vel þar. Ég átti stórfjölskyldu sem hafði tekið mér opnum örmum.“ Biðin hafði það í för með sér að Guðlaugur hitti aldrei blóðföður sinn. „Ég náði því ekki, ég var of seinn. Mér skilst að þetta hafi verið öndvegismaður í alla staði,“ segir hann. „Og að ég sé líkur honum. Hann var með svipuð áhugamál og ég, reyndar ekki stjórnmál, en hann var áhugamaður um sögu og spilaði bridge og skák, var líka alltaf að segja sögur. Ég er ekki saklaus af því.“

Guðlaugur ásamt foreldrum sínum, Þórði Sigurðssyni og Sonju Guðlaugsdóttur.
Mynd úr einkasafni.

Frá því hann hafði samband við blóðmóður sína hefur ættingjunum fjölgað til muna. „Ég hef verið að taka hús á fólki sem er blóðskylt mér, ég hefði átt að gera það mun fyrr því þetta er skemmtilegt og gott fólk. Sumt þekkti ég reyndar áður, vissi bara ekki að það væri skylt mér. Til dæmis býr bróðir minn hérna í Grafarvoginum. Hann kallaði mig til þegar frændsystkinin hittust og þar voru margar tengingar. Það er frábært þegar frændgarðurinn stækkar.“

Tíminn er hins vegar alltaf stóri vandinn. „Það er bara staðreynd að ég vinn mjög mikið. Ég er með samviskubit að ná ekki að sinna fjölskyldunni almennilega. Þegar foreldrar mínir voru aldraðir þá setti ég þau í forgang. Það eina sem mig virkilega vantar er meiri tími.“

Guðlaugur vissi snemma á ævinni að hann væri ættleiddur. „Það var aldrei neitt leyndarmál, allur bærinn vissi af því. Það hefði verið mjög sárt að vita það seint eða komast að því fyrir tilviljun. Mín reynsla er að það er alltaf best að segja börnum það um leið og þau hafa til þess þroska,“ segir hann. „Ég hef alla tíð talsvert verið spurður út í ættleiðinguna og verið ófeiminn við að ræða hana og ég vona að það geti orðið hvatning til annarra að gera það líka. Það kom fyrir að ég varð fyrir aðkasti frá einhverjum krökkum, ég veit ekki til þess að neinn annar í Borgarnesi á þessum tíma hafi verið ættleiddur. En það situr ekki í mér, börn eru bara börn.“

Fyrsta minningin hans úr æsku er þó öllu verri, það er að liggja á sjúkrahúsi fjögurra ára gamall eftir að hafa höfuðkúpubrotnað. „Ég lá með blóð rennandi úr höfðinu, læknirinn benti á mömmu og vildi fá mig til að bera kennsl á hana til að kanna hvort ég væri nokkuð skaddaður. „Þetta er Sonja Guðlaugsdóttir, móðir mín,“ svaraði ég, það virtist vera allt í lagi með mig.“

Gagnrýndur af mömmu

„Ég er ekki fæddur inn í Sjálfstæðisflokkinn, ég kem af venjulegu fólki úr litlum bæ á landsbyggðinni. Ég varð hins vegar mjög fljótt pólitískur, hef líklega verið sex ára þegar ég fór að rífast. Foreldrar mínir höfðu miklar áhyggjur þegar ég hóf ferilinn, því þau þekktu lítið það umhverfi sem ég var að fara inn í en studdu mig alla leið þegar ég hóf þátttöku.“

Guðlaugur er mikill dýravinur og hefur tekið á móti á fjórða tug katta.
Mynd úr einkasafni.

Foreldrar Guðlaugs eru bæði nýlega látin. „Ég sakna þeirra mikið. Þegar ég heyrði í mömmu fékk ég t.d. alltaf að tilfinningu fyrir því hvernig stór hópur í Sjálfstæðisflokknum hugsaði, ég fékk ákveðna línu,“ segir hann og brosir. „Ég fékk ekki gagnrýnislaust uppeldi, hvað þá þegar ég var kominn í stjórnmálin.“

Stjórnmálaferillinn hófst þegar Guðlaugur flutti frá Borgarnesi til Akureyrar í menntaskóla og þangað liggja einnig sterkar taugar. „Ungir Sjálfstæðismenn fyrir norðan voru fljótir að átta sig á að þarna væri mjög pólitískur maður. Ég get ekki kvartað undan því hvernig tekið var á móti mér í Sjálfstæðisflokknum,“ segir hann.

Sýn Guðlaugs á flokkinn byggist mjög á uppruna hans. „Mín hugsjón snýst um að gefa öllum tækifæri, að bakgrunnur fólks skipti engu máli. Innmúraður maður í flokknum sagði eitt sinn við mig að ég ætti ekki að bjóða mig fram til forystu, Sjálfstæðisflokkurinn væri nokkrar fjölskyldur og að ég tilheyrði þeim ekki. Ég tók ekki mark á því og sem betur fer hefur fólkið í flokknum ekki gert það heldur. Ég hef barist fyrir stöðu minni í flokknum, ekki fengið neitt gefins í því. Sjálfstæðisflokkurinn á að vera fjöldahreyfing en ekki einkaklúbbur útvalinna. Ég mun aldrei hvika frá þeirri afstöðu minni.“

Ekki allir úr sömu átt

Staða flokksins í íslenskum stjórnmálum hefur breyst mikið frá því Guðlaugur settist á þing árið 2003, fyrir 18 árum. „Við erum fjöldaflokkur. Fjöldaflokkur er mun merkilegra fyrirbæri en margir átta sig á. Þeir sem stofnuðu Sjálfstæðisflokkinn lögðu áherslu á stétt með stétt. Ekki bara það sem okkur finnst augljós sannindi, að það séu hagsmunir launaþeganna að atvinnulífinu gangi vel, heldur snýst þetta líka um að vera með breiðan hóp innan flokksins.“

„Frá því að flokkurinn var stofnaður hafa aldrei allir verið sammála. Þegar hann var hvað stærstur gátu innan hans verið mikil átök og heilbrigð skoðanaskipti. Til er fræg saga af því þegar Ólafur Thors sagði við gagnrýnanda sinn innan flokksins: „Haltu áfram að skamma okkur!“ Um leið og við hættum að hlusta á gagnrýni og tökum ekki á móti nýju fólki til starfa þá fer ekki vel. Það þarf að vera markmið að ekki komi allir úr sömu áttinni, sama hópnum,“ segir Guðlaugur. „Við, sem erum í stjórnmálum, eigum ekki að kvarta undan því að vera gagnrýnd, sér í lagi ekki ef umræðan er málefnaleg og byggð á staðreyndum.“

Guðlaugur er í góðu sambandi við fjölmarga flokksmenn, bæði kjörna fulltrúa og þá sem eru í grasrótinni. Hann er enn að berjast fyrir sömu málum og hann gerði þegar hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, frelsi og ráðdeild. „Þegar ég var ungur Sjálfstæðismaður og var að hitta menn eins og mig í dag, hvernig vildi ég að þeir væru? Ég vildi að þeir væru samkvæmir sjálfum sér, trúir uppruna sínum og sannfæringu sinni. Ráðdeild í ríkisrekstri hefur alltaf verið mér hugleikin og ég hef reynt að stuðla að henni þegar ég hef verið í aðstöðu til þess, bæði sem þingmaður og ráðherra í tveimur ráðuneytum. Ég lét t.d. loka sendiráðum í góðæri og fékk lögum breytt þannig ekki væri hægt að skipa neinn sendiherra út starfsævina án auglýsingar og á grundvelli hæfniskrafna. Við skilum jafnframt rekstrarafgangi í utanríkisráðuneytinu árið 2020 sem er árangur aðhalds í rekstri.“

Það heyrist á Guðlaugi að hann hefur mikla ánægju af því að tala um stefnumál á ýmsum sviðum, hvort sem það eru menntamál eða byggðamál. Hann er nákvæmur og veigrar sér við því að fara með fleipur, hann næst ekki á flug þegar kemur að hitamálum á borð við Samherjamálið. Hann þvertekur fyrir að það mál sé eitthvað viðkvæmt, hann vilji einfaldlega ekki tjá sig um hluti sem hann er ekki búinn að kynna sér til hlítar. „Þegar fyrirtæki eru orðin mjög stór þá verður að gera mjög miklar kröfur til þess hvernig þau haga sér. Í okkar litla þjóðfélagi þarf að sýna samfélagslega ábyrgð og auðmýkt. Sama á reyndar við um risana á fjölmiðlamarkaði.“

Guðlaugur segir að stóra verkefnið í íslenskum stjórnmálum sé að treysta stoðir atvinnulífsins. „Þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við eiga það sameiginlegt að hafa traust efnahagskerfi og fjölbreytt atvinnulíf. Það gerist ekki að sjálfu sér. Sumir stjórnmálamenn átta sig ekki á þessu og stundum virðist skorta á skilning á rekstrarumhverfi fyrirtækja hjá þeim. Það er hagur allra að fyrirtækin blómstri; samfélagsins, eigendanna og starfsmannanna.“

„Við erum stundum ósammála en náum alltaf á endanum að komast að niðurstöðu sem allir eru svipað óánægðir með.“
Fréttablaðið/Stefán

Útilokar ekki formannsframboð

Guðlaugur útilokar ekki að sá dagur komi að hann bjóði sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins og það hefur oft verið nefnt við hann. „Ég útiloka það ekki en það stendur ekki til eins og málum er háttað. Flokkurinn er með öflugan formann sem ég styð. Ég stefni áfram á 1. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og kvíði því ekki að leggja störf mín í dóm kjósenda þegar kemur að prófkjöri og kosningum. Ég er stoltur af því sem við höfum komið í verk í utanríkisráðuneytinu. Verkefnalistinn er langur og auðvelt að kynna sér hann.“

Hann segir ekki erfitt að starfa í núverandi ríkisstjórn, en það sé vissulega öðruvísi. „Við erum stundum ósammála en náum alltaf á endanum að komast að niðurstöðu sem allir eru svipað óánægðir með,“ segir hann og brosir. „Þarna skiptir reynslan svo miklu máli.“ Hann hefur nokkrar áhyggjur af of mikilli nýliðun á þingi. „Í síðustu ríkisstjórn fór ég að sofa og vaknaði með 200 sms um að ríkisstjórnin væri fallin. Það var ekki vont fólk í þeirri ríkisstjórn, bara reynslulítið. Ef þú hefðir talað við mig fyrir 18 árum þá hefði ég alveg verið með sjálfstraustið til taka að mér verkefnin sem ég sinni núna. Í dag er ég rosalega ánægður að hafa öðlast reynslu og þroska áður en ég tók þau að mér,“ segir Guðlaugur. „Þegar ég hitti utanríkisráðherra annarra landa er ég oftast ungi maðurinn. Ég segi yfirleitt engum að ég sé með hvað mesta þingreynslu á Íslandi, erlendis teljast 18 ár ekkert rosalega mikið.“

Mótmælin voru þroskandi

Í kjölfar hrunsins var stjórnmálaferli Guðlaugs teflt í tvísýnu. Meðal annars var mótmælt fyrir utan heimili hans og það heyrist á honum að þetta er ekki tími sem hann langar að rifja upp. „Þetta var erfitt. Það kom reyndar minnst við sjálfan mig, en ég fann það á fjölskyldunni hvað þetta tók á. Það þýddi ekkert að taka neina umræðu, maður bara öskraði upp í vindinn.“ Mótmælin höfðu áhrif á hann. „Þetta var mjög þroskandi. Ég reyndi að setja mig í spor þeirra sem áttu um sárt að binda, fólk sem var búið að missa mikið. Ég setti skuldamál heimilanna í forgang og nú erum við komin með húsnæðiskerfi sem hjálpar fólki að eignast í stað þess að skulda. Þetta var góður skóli, en erfiður.“

Guðlaugur og heimilishundurinn Máni.
Fréttablaðið/Stefán

Fyrir tveimur árum var honum svo hótað lífláti á netinu vegna þriðja orkupakkans. „Það var sett af stað hrein og klár lygasaga sem breiddist út eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum um að fjölskylda mín myndi hagnast á virkjun á skógræktarjörð með tilkomu þriðja orkupakkans. Ég barðist gegn þessari virkjun og hún er ekki nálægt jörðinni,“ segir hann og hlær. „Þó að svona hótanir séu yfirleitt ekki meira en orðin tóm þá á að taka þær alvarlega og ég hvet alla sem lenda í svona að láta lögregluna vita. En svo það sé sagt þá voru margir góðir vinir mínir ósammála mér í þessu máli og við það geri ég engar athugasemdir. Ég veit að þeir tóku ekki þátt í ófrægingarherferðinni gegn mér. Það voru aðeins örfáir menn sem sáust ekki fyrir í baráttunni. Umbúðalaus skoðanaskipti eru holl og nauðsynleg og engan veginn hægt að gera kröfu um að allir séu alltaf sammála.“

Barnabörnin orðin þrjú

Guðlaugur er mikill dýravinur, heimilishundurinn Máni er duglegur að koma til hans og fá klapp. „Ég hef tekið á móti 36 kettlingum, ég missti meira að segja af lokaþætti Gæfa eða gjörvileiki í sjónvarpinu til að taka á móti kettlingum. Ég var sá eini í skólanum daginn eftir sem hafði ekki séð þáttinn.“

Guðlaugur á tvíbura með Ágústu og hún átti tvö börn fyrir. Barnabörnin eru nýlega orðin þrjú. „Þetta er ótrúleg gæfa,“ segir hann brosir út að eyrum. „Ég er mjög stoltur af börnunum fjórum, þau eru öll mjög sjálfstæð. Ef einhver heldur að tvíburar séu alltaf líkir þá er það fullkominn misskilningur. Mínir tvíburar gætu a.m.k. ekki verið mikið ólíkari,“ segir hann. „Pabbi sagði að við værum með börnin í láni til 15 ára aldurs, síðan væri bara að bíða og vona það besta. Ég held að það sé alveg rétt og mér sýnist ég ekki þurfa að kvíða neinu.“