Samkvæmt Reuters var tilkynnt í Moskvu í vikunni að framleiðsla myndi brátt hefjast á nýjum Moskvich í verksmiðju í Moskvu. Verksmiðjan er sú sama og framleiddi áður Renault-bíla sem franski framleiðandinn lét af hendi eftir að átökin í Úkraínu brutust út. Verksmiðjuna seldi Renault til Autovaz fyrir eina rúblu, sem hefur nú selt aftur til Moskow Automobile Factory Moskvich fyrir sömu upphæð. Síðasti bíll Moskvich var mjög gamaldags en nýr Moskvich 3 er nýtískulegur með díóðuljósum, álfelgum og stórum upplýsingaskjá í innréttingu. Um bensínbíl er að ræða í nokkurs konar jepplingsútgáfu en hann byggir á hinum kínverska Sehol X4 sem framleiddur er af kínverska merkinu JAC. Að sögn Reuters koma íhlutir í bílinn beint frá Kína. Áætlað er að framleiða 100.000 bíla á ári í verksmiðjunni, og stendur til að framleiða rafdrifna bíla þar líka. Fyrsti bíllinn mun rúlla út af færibandinu í næsta mánuði og mun sala í Rússlandi hefjast strax og það gerist.