Félag múslima á Íslandi fékk í gær leyfi til að byggja mosku við Suðurlandsbraut gegn því að uppfylla ákveðin skilyrði áður en framkvæmdir hefjast. Beiðni félagsins um að byggja tveggja hæða bænahús á lóð sinni við Suðurlandsbraut var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar.

Gert er ráð fyrir að húsið verði 677 fermetrar og verði úr forsteyptum einingum. Fyrsta hæðin verður 598 fermetrar en sú efri 79 fermetrar. Samkvæmt frétt RÚV á enn eftir að skila inn sérteikningum og greiða tilskilin gjöld sem og ráða byggingarmeistara. Verði þessum skilyrðum fylgt eftir geta framkvæmdir hafist.

Lengi í bígerð

Moskan hefur verið lengi í bígerð eða allt frá árinu 1999. Reykjavíkurborg samþykkti í september árið 2013 að veita félaginu lóðina við Suðurlandsbraut 76. Síðan þá hefur mikið verið rætt um bygginguna en lítil hreyfing orðið í málinu.