Mosfellsbær hefur kært deiliskipulagsbreytingu Reykjavíkurborgar á Esjumelum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingin snerist um að svæði við Koparsléttu, sem áður var athafnasvæði, var breytt í iðnaðarsvæði. Það myndi gera mögulegt að starfrækja mengandi iðnað á svæðinu. Kæran var lögð fram þann 26. júní síðastliðinn.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, harmar að þurfa að feta þessa braut, en afar sjaldgæft er að sveitarfélög kæri hvert annað með þessum hætti. Mosfellingum var þó nauðugur einn kosturinn. „Það skiptir Mosfellinga miklu máli hvaða starfsemi fer fram á Esjumelum og að lágmarki þarf hún að samræmast gildandi aðalskipulagi,“ segir Haraldur.

„Þá fundaði ég með borgarstjóra vegna þessa máls, en það bar engan árangur og ekki var tekið tillit til okkar sjónarmiða.“

Hann bendir á að skýrt sé kveðið á um, í aðalskipulagi Reykjavíkur, að athafnasvæðið við Esjumela sé ekki ætlað undir iðnaðarstarfsemi. Hins vegar eru vissar heimildir fyrir iðnaðarstarfsemi á athafnasvæðinu og mikilvægt sé að skera úr um það misræmi. „Það hvílir lagaleg skylda á sveitarfélögum að haga skipulagsáætlunum til samræmis við áætlanir aðliggjandi sveitarfélaga. Borgarstjórn ber að kynna deiliskipulagsbreytingar fyrir hagsmunaaðilum en það var ekki gert í þessu tilviki,“ segir Haraldur.

Fyrirhugað er að Malbikunarstöðin Höfði fái lóð á svæðinu undir starfsemi sína. Haraldur segir að það muni hafa í för með sér verulega neikvæð umhverfisleg og sjónræn áhrif fyrir Mosfellsbæ, auk lyktarmengunar.

„Við höfum komið athugasemdum okkar skýrt á framfæri. Þá fundaði ég með borgarstjóra vegna þessa máls, en það bar engan árangur og ekki var tekið tillit til okkar sjónarmiða,“ segir Haraldur.

En deilan snýst ekki aðeins um malbikunarstöð á Esjumelum heldur einnig nærliggjandi lóð, þar sem til stendur að Íslenska gámafélagið hefji moltugerð undir berum himni. „Þau áform getur Mosfellsbær ekki sætt sig við,“ segir Haraldur.

Hann bendir á að Mosfellsbær hafi haft veruleg óþægindi af nálægðinni við urðunarstað Sorpu í Álfsnesi, til dæmis vegna lyktar. „Við höfum átt gott samstarf við að byggja eitt stærsta einstaka umhverfisverkefni síðari tíma, sem er gas- og jarðgerðarstöðin GAJA þar sem unnið er úr lífrænum úrgangi í lokuðu mannvirki. Það skýtur því skökku við, að okkar mati, að hefja moltugerð í okkar bakgarði með tilheyrandi lyktarmengun,“ segir Haraldur.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar