Tyrknesk yfirvöld segja morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi hafa verið þaulskipulagt. Myndir sem birtar voru fyrr í dag sýna Sáda, dulbúinn sem blaðamanninn, yfirgefa ræðismannaskrifstofu Sádi-Araba í Istanbúl, stuttu eftir að blaðamaðurinn fór þar inn. AFP-fréttastofan greinir frá. 

Stjórnvöld Sádi-Arabíu staðfestu fyrir helgi að Khas­hoggi hefði látist í á­flogum á ræðis­manns­skrif­stofu Sádi-Arabíu í Istanbúl þann 2. októ­ber. Enn er fjöl­mörgum spurningum ó­svarað um af­drif blaða­mannsins, sem var í sjálf­skipaðri út­legð frá heima­landi sínu eftir gagn­rýni á konungs­fjöl­skylduna. 

Flest virðist ú benda til þess að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi skipulagt morðið, en Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, og Salman konungur hafa báðir vottað syni blaðamannsins samúð sína.

Blaðamaðurinn var í sjálfskipaðri útlegð frá heimalandinu og gert það gott sem blaðamaður í Bandaríkjunum, þar sem hann skrifaði meðal annars fyrir Washington Post. Khashoggi var afar gagnrýninn í garð stjórnvalda í heimalandinu og voru ýmsar kenningar á lofti eftir hvarf hans.

Stjórnvöld Sádi-Arabíu höfðu þrætt fyrir hvarf hans og sögðu hann framan af hafa yfirgefið ræðismannaskrifstofuna heilan á húfi. Fyrir helgi viðurkenndu þeir skyndilega að Khashoggi hafi látist í húsinu en að það hafi verið í kjölfar slagsmála. Utanríkisráðherrann Adel al-Jubeir sagði svo við Fox News í gær að „morðið“ hafi verið „rosaleg mistök“ en að Sádi-Arabar vissu ekkert hvar líkið gæti verið. Áður hefur komið fram að því var sennilega eytt í sýru.

Tyrkneska lögreglan hefur haft málið til rannsóknar og yfirheyrði í dag starfsmenn skrifstofunnar, en blaðamaðurinn hélt þangað til þess að sækja skjöl fyrir brúðkaup sitt. Erdogan Tyrklandsforseti ætlar að upplýsa um niðurstöður rannsóknarinnar á tyrkneska þinginu á morgun. Omer Celik, talsmaður stjórnarflokks Edrogan í Tyrklandi, segir morðið hafa verið þaulskipulegt og grimmilegt. 

Don­ald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn í Hvíta hús­inu í dag að hann væri „ekki sátt­ur“ við út­skýr­ing­ar stjórn­valda í Ríad um það hvernig Khashoggi lét lífið. Þá sagði hann það liggja fyr­ir „mjög bráðlega“ hvort Sádar væru að segja satt eður ei.  

Khashoggi var að öllum líkindum myrtur af fimmtán manna teymi sem ferðaðist sérstaklega til Istanbúl til að ráða blaðamannin af dögum, er hann fór til ræðismannsins að sækja pappíra.

CNN greindi frá því fyrst að mennirnir hafi sett á svið brotthvarf hans, örfáum tímum eftir morðið.

Maður sem er svipaður á hæð og þyngd og Khashoggi hafi klæðst fötunum hans, gleraugum og gerviskeggi, til að líkjast blaðamanninum.  

Í grein CNN kemur fram að Tyrkir hafi borið kennsl á manninn sem þóttist vera Khashoggi. Um hafi verið að ræða Mustafa al-Madani, sem var á meðal þeirra sem aflífaði Khashoggi.