Bretland, Frakkland og Þýskaland hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau krefja Sádi-Arabíu svara um andlát blaðamannsins Jamal Khashoggi. Í yfirlýsingunni segir að enn sé þörf á því að útskýra nákvæmlega hvað hafi átt sér stað þann 2. október – umfram þær kenningar sem yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa lagt fram í tengslum við rannsókn sína á morðinu. Segir að rannsóknina þurfi að styðja með trúanlegum staðreyndum. Greint er frá á Guardian.

Greint var frá því á föstudag í ríkissjónvarpi Sádi-Arabíu að Khashoggi hefði látist eftir átök á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Hans hafði verið saknað frá því í byrjun október.

Yfirvöld í Sádi Arabíu sögðu í dag að upphaflega hafi aðeins átt að ná Khashoggi og sannfæra hann um að snúa aftur til Sádi-Arabíu. Myndi hann ekki verða við því yrði honum sleppt.

Sjá einnig: Sádi-Arab­ar stað­fest­a að Khas­hogg­i sé lát­inn

Morðið „hrikaleg mistök“

Ekkert hefur verið gefið upp um hvar lík Khashoggi er og greina margir erlendir fjölmiðlar frá því að Sádi arabíski krónprinsinn sé bæði hissa og reiður yfir sterkum viðbrögðum vestrænna ríkja. Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel Al-Jubeir, sagði í viðtali við Fox News í dag að prinsinn hafi ekki vitað af neinum áætlunum um að myrða Khashoggi og að ekkert væri vitað um það hvar lík hans væri. Hann sagði í viðtölum við fjölmiðla í dag að morðið hafi verið „hrikaleg mistök“ og að þeir sem beri ábyrgð á því verði sóttir til saka.

Tyrkir upplýsa um niðurstöður rannsóknar á þriðjudag

Talið er að tyrknesk yfirvöld hafi í fórum sínum hljóðupptöku af morðinu. Forseti Tyrklands, Erdogan, hefur lofað að upplýsa að fullu á þriðjudaginn hvað rannsókn tyrkneskra yfirvalda um morðið á Khashoggi hefur leitt í ljós. 

Yfirvöld vestrænna ríkja eru sögð ætla að bíða eftir þeirri skýrslu áður en ákveðið verður hvort eða hvaða refsingum  Sádi-Arabar verða beittir.

Sjá einnig: Tyrkir hóta að afhjúpa allt um morðið