Matthew ­Walker, prófessor í sálfræði og taugavísindum við Berkeley-háskóla, er einn virtasti vísindamaður heims á sviði svefnrannsókna. Hann er höfundur metsölubókarinnar Why we sleep sem kom út árið 2017 og fór sigurför um heiminn.

Í vor kemur bók Matthews út á íslensku í þýðingu Herdísar Hübner og mun kallast á því ylhýra; Þess vegna sofum við. Þá er hann væntanlegur til landsins á árinu og verður gestur á stórri ráðstefnu um svefn sem verður haldin í Hörpu í haust.

Matthew Walker talar enga tæpitungu um afleiðingar þess að missa svefn. Skortur á svefni geti beinlínis verið banvænn.

Hann tekur símtali frá Íslandi vel. „Já, við skulum endilega spjalla um svefn,“ segir hann léttur í bragði.

Hvers vegna hefur þú eytt ævinni í að rannsaka áhrif svefns á heilsuna?

„Ég held að svefn sé vanmetnasta lífsstoð manneskjunnar sem því miður alltof fáir huga nógu vel að.“

Hversu skýrt er sambandið á milli svefns og sjúkdóma, til dæmis hjarta- og taugasjúkdóma?

„Stórar faraldsfræðilegar rannsóknir sýna að það að sofa sjö tíma eða skemur á hverru nóttu getur aukið hættu á hjartaáfalli um 20 prósent. Svefnskortur eykur álag á hjartað. Við vitum líka úr stærstu rannsókn heims á svefni að þegar skipt er frá vetrartíma yfir í sumartíma á vorin fjölgar hjartaáföllum um 24 prósent. Á haustin þegar skipt er í vetrartíma aftur dregur úr hjartaáföllum um 21 prósent.“

Tengslin við Alzheimer

Þegar kemur að taugasjúkdómum er sterkasta sambandið við Alzheimer-sjúkdóminn.

Við vitum að fólk sem sefur minna en sex klukkustundir á nóttu er í mun meiri áhættu á uppsöfnun á amyloid beta prótíni,“ segir Matthew en samkvæmt ríkjandi kenningu orsakast Alzheimer af útfellingum og uppsöfnun af amyloid beta (Aβ) skellum utan um taugafrumur og veldur eitrunaráhrifum.

Nýlegar rannsóknir á dýrum sem hafa verið svipt svefni í eina nótt sýna að þetta prótín safnast upp í heilanum strax daginn eftir. Og enn nýrri rannsóknir á svefni manna sýna sömu niðurstöður. Að missa svefn í aðeins eina nótt hefur áhrif og svefnleysið hefur ekki eingöngu áhrif í þessum efnum heldur gæði svefnsins. Truflun á djúpsvefni veldur einnig uppsöfnun á þessu prótíni í heila.

Matthew segir ekki langt síðan vísindamenn uppgötvuðu að heilinn losar sig við skaðleg efni, sem myndast við eðlileg efnaskipti í vöku, í djúpsvefni. „Í djúpsvefni fer hreinsunarferli heilans í fimmta gír, í raun mætti segja að það væri fráveitukerfi í heilanum sem hreinsar í burtu eiturefni á borð við amyloid prótínið,“ segir hann sem dæmi um það hvernig skortur á svefni tengist heilsubresti og sjúkdómum.

Hvað með áhrif svefns á minnið? Getur góður nætursvefn haft góð áhrif á minnið og öfugt, getur skortur á svefni haft slæm áhrif á minnið strax daginn eftir?

„Lengd og gæði svefns hefur gríðarleg áhrif á námsgetu okkar. Hæfni okkar til að læra nýja hluti verður miklu minni. Við höfum gert rannsóknir á þessu og niðurstaðan var mjög skýr. Geta heilans minnkar um 40 prósent, það er munurinn á því að falla á prófi og ná því með glans! Við vitum af hverju þetta er, ef ég líki heilanum við pósthólf, þá fyllist það ef við sofum ekki. Og getur þar af leiðandi ekki tekið við nýjum skilaboðum.“

Miðað við gang sólar er klukkan á Íslandi rangt skráð. Síðan 1968 hefur klukkan á Íslandi verið stillt á sumartíma allt árið. Íslendingar hafa deilt um það árum saman hvort það eigi að seinka klukkunni eða ekki. Sumir vilja ekki missa síðdegisbirtuna og aðrir benda á að seinkun klukkunnar feli í sér lengri svefn og heilbrigðari þjóð. Nú ætla ég að blanda þér í deiluna, hvað finnst þér?

„Það er engin spurning, ég styð það að seinka klukkunni. Annars erum við alltaf að berjast við líkamsklukkuna og það ástand leiðir til þess að svefn skerðist. Það eykur líkur á alvarlegum heilsufarsvanda, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, taugasjúkdómum, offitu og sykursýki. Þetta sýna fjölmargar nýlegar rannsóknir. Við þurfum að samræma líf okkar sólarganginum.“

Hvers vegna sofum við á nóttunni? Hefur maðurinn alltaf haft sömu svefnvenjur?

„Svefn hefur breyst mikið. Fyrr á öldum sváfum við ekki í samfelldum dúr yfir nóttina og fórum fyrr í háttinn. Hefur þú einhvern tímann spáð í það hvað orðið miðnætti þýðir? Það hefur bókstaflega þýðingu, fólk fór að sofa um tveimur klukkustundum eftir að sólin settist. Og vaknaði um hálftíma fyrir sólarupprás, ekki við sólarljósið heldur hitabreytingar.“

Ráðgátan um tilgang drauma

Hvað vitum við ekki um svefn? Hvaða ráðgátur eru óleystar?

Í rauninni vitum við aðeins brotabrot um svefn. Það sem mér finnst vera heillandi viðfangsefni eru tengslin á milli svefns og örvera í þörmunum. Við vitum að það eru bein tengsl á milli þessara örvera og taugakerfisins í þörmunum við heilann. Við vitum að þegar við sofum ekki nóg þá breytist samsetning örveranna mikið. Þær rannsóknir sem er verið að gera núna gætu veitt okkur mikilvægar upplýsingar og sérstaklega hvað varðar tengsl þessara örvera við heilsu okkar og jafnvel geðheilsu.

Ég held að við skiljum heldur ekki nægilega vel samband hreyfingar og svefns. Stuðlar regluleg líkamsrækt að betri svefni. Og getur góður nætursvefn stuðlað að góðri frammistöðu íþróttamanna. Við skiljum sífellt betur sambandið þarna á milli.

Og draumarnir! Við skiljum ekki tilgang drauma. Við vitum ekki hvernig heilinn framleiðir drauma og hvort þeir hafi raunverulegan tilgang. Við höfum vísbendingar um að draumar séu nokkurs konar tilfinningaleg fyrsta hjálp. Og við vitum líka að það eru einhver tengsl á milli skapandi hugsunar og drauma. En það sem við skiljum ekki er hvers vegna við förum í þetta ofskynjunarástand hverja einustu nótt. Við vitum heldur ekki hvort dýr dreymir og ef þau gera það, hvað það þýðir.

A-, B- og C-týpur

En hvað með A-týpur og B-týpur? Eru þær til eða er þetta bara mýta?

„Já, nátthrafnar og morgunhanar eru svo sannarlega til. Týpurnar eru reyndar þrjár, A, B og C. Einstaklingar hafa mislanga dægursveiflu. Þeir sem eru árrisulir og kvöldsvæfir eru með stutta dægursveiflu og þeir sem eru með lengri dægursveiflu geta vakað lengur á kvöldin en sofa fram eftir á morgnana,“ segir Matthew og segir hlutföllin fremur jöfn á milli morgunhana, nátthrafna og þriðju týpunnar sem blaðamaður stingur upp á að sé kölluð miðdegismávar.

„Og þú getur engin áhrif haft á þetta, því þú erfir upplagið. Þú getur ekki breytt þér. Við þurfum að taka meira tillit til nátthrafnanna, því þeir eru neyddir til að lifa eins og morgunhanar. En eiga mjög erfitt með það, og þegar þú ert að berjast á móti eigin líkamsklukku, þá leiðir það af sér verri heilsu. Það er til dæmis þekkt að nátthrafnar glíma við verri geðheilsu.“

Könnun Rann­sókn­ar og grein­ingar frá árinu 2019 sýn­di að 42% ung­menna í 9. bekk og 54% ung­menna í 10. bekk fá ekki næg­an svefn. Hvað finnst þér um það?

„Niðurstöður rannsókna sýna að svefnvana börn og unglingar eru í meiri hættu á að glíma við depurð og þunglyndi. Þau sýna einnig frekar dæmi um áhættuhegðun og verri námsárangur. Þau glíma við verri sjálfsmynd og tilfinningu um vonleysi. Því miður er sjálfsmorðs­tíðni á meðal þeirra einnig hærri.“

Svefnþjófurinn: koffín

Hvað með kaffi og orkudrykki og áhrif slíkra drykkja á svefn?

Kaffi hefur mikil áhrif á svefn. Það veldur ekki eingöngu svefnleysi heldur hefur það einnig skaðleg áhrif á gæði svefns. Maður heyrir fólk oft segja: Ég get drukkið kaffibolla að kvöldi en samt sofið eins og ungbarn. Þetta er mikill misskilningur því gæði svefnsins eru svo miklu verri. Koffín er lengi að fara úr líkamanum. Fjórðungur koffíns hádegisbollans er enn í líkamanum á miðnætti. Fólk verður hreinlega agndofa þegar ég segi því þessar fréttir. Kaffi- og orkudrykkir eru miklir svefnþjófar,“ segir Matthew.