Flugi Niceair frá Akureyri til London sem áætlað var klukkan 7.45 í morgun var í gærkvöldi frestað til hádegis í dag. Að sögn framkvæmdastjóra félagsins, Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssonar, var farþegum tilkynnt um breytinguna í gærkvöldi og því mætti enginn á völlinn snemma í morgun.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að unnið væri að lausn með íslenskum flugrekanda en vandamál hafa verið á Lundúnaflugi félagsins frá því að það hóf rekstur fyrr í þessum mánuði.

„Niceair er leigu­flug­fé­lag sem leigir vél sína frá HiFly Malta, dóttur­fé­lagi HiFly,“ sagði í svari bresku flugmálastjórnarinnar til Fréttablaðsins sem einnig leitaði til Samgöngustofu sem sagði mál félagsins ekki heyra undir stofnunina því flugrekandinn er skráður á Möltu.

„Vandinn liggur í því að við undir­búning á­ætlunar­flugsins var til­skilinna leyfa breskra flug­mála­yfir­valda vegna far­þega­flugs ekki aflað. Þau sam­skipti og leyfis­mál eru al­farið og hafa verið á á­byrgð flug­rekandans og ferða­skrif­stofunnar,“ sagði Sam­göngu­stofa í svari til blaðsins.

Þor­valdur Lúð­vík sagði í viðtali við blaðið í dag það ekki alla skýringuna að ekki hafi verið sótt um til­skilin leyfi í Bret­landi. Vandinn lægi einnig í því að flug­rekandinn HiFly sé í Evrópu­sam­bands­landi en Ís­land og Bret­land séu með tví­hliða loft­ferða­samning.

Von er á tilkynningu frá félaginu um málið í dag að sögn framkvæmdastjóra.

Fréttin hefur verið uppfærð 10.6.2022 klukkan 10:33.