Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna sjö tilkynningum um umferðarslys í gærkvöldi og þar af var eitt alvarlegt. Þar að auki voru tvær konur handteknar fyrir þjófnað og einn tekinn fyrir akstur undir áhrifum. Alls voru 48 mál bókuð á tímabilinu fimm í gær til fimm í nótt og sex vistaðir í fangageymslu.

Rétt fyrir hálftíu varð alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbraut við Straumsvík. Lögregla lauk störfum rétt fyrir miðnætti og þá var Reykjanesbraut opnuð á ný. Nú í morgun bárust fréttir af því að banaslys hefði átt sér stað og einn maður hefði látið lífið.

Engin slys urðu á fólki í hinum sex umferðaróhöppunum sem lögregla sinnti, en þau urðu víðs vegar um borgina milli um það bil hálf sjö og átta í gærkvöldi. Að minnsta kosti tveir bílar voru óökufærir eftir sín óhöpp.

Rétt fyrir sjö í gærkvöldi óskaði starfsfólk verslunar í miðborginni eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar. Tvær konur á þrítugsaldri voru handteknar og þær voru vistaðar í fangageymslu. Þær voru báðar í annarlegu ástandi og í fórum þeirra fundust meint fíkniefni.

Rétt eftir hálf eitt í nótt var ökumaður handtekinn í Laugardal, grunaður um fíkniefnaakstur og akstur án ökuréttinda. Hann var látinn laus eftir sýnatöku.

Um hálf níu var tilkynnt um slys utandyra í Hlíðahverfi. Þar hafði ungur maður runnið í hálku á gangstétt og var mögulega ökklabrotinn á vinstri fæti. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.