Fyrstu tvo áratugi nýrrar aldar sjöfaldaðist hlutfall fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda á Íslandi. Á haustdögum 2022 var fimmti hver starfsmaður á íslenskum vinnumarkaði af erlendum uppruna. Stærstur hluti þeirra heyrir til ferðaþjónustunni, en rúmlega fjörutíu prósent starfsmanna í greininni rekja ættir sínar til útlanda.

Þetta kemur fram í rannsókn Hallfríðar Þórarinsdóttur, sem upphaflega var unnin 2019, en var uppfærð fyrir 50 ára afmælisrit Leiðsagnar, félags leiðsögumanna, sem kom út á síðasta ári.

Þar er minnt á gríðarlegan vöxt ferðaþjónustunnar á afar stuttum tíma í atvinnusögu landsmanna, en á innan við áratug, frá 2010, óx ferðaþjónustan úr því að vera árstíðabundin atvinnugrein yfir í það að vera stærsti og arðbærasti atvinnuvegur þjóðarbúsins, stærri en bæði ál- og fiskútflutningur sem lengst af öfluðu þjóðarbúinu mestra gjaldeyristekna.

Til glöggvunar á þessari þróun bendir Hallfríður á að hálf milljón erlendra ferðamanna hafi komið til landsins 2010, eða tæplega helmingi fleiri en íbúar landsins voru það árið, en eftir hraðfara stígandi sem náði hámarki 2018 hafi þeir verið orðnir 2,3 milljónir, sem svari til þess að 6,5 erlendir ferðamenn hafi verið hér á hvert mannsbarn í landinu.

Hallfríður segir að enda þótt fækkað hafi í hópi erlends vinnuafls í ferðaþjónustunni á tímum heimsfaraldurs, einkum vegna samkomutakmarkana á árunum 2020 og 2021 þegar greinin skellti svo að segja í lás, hilli á ný undir stórfjölgun í hópi innflytjenda í henni á komandi árum.

Samtök atvinnulífsins reikni með að störfum muni fjölga um fimmtán þúsund fram til ársins 2025. „Þar sem innlendu fólki á starfsaldri mun einungis fjölga um þrjú þúsund þarf að sækja tólf þúsund starfsmenn til annarra landa,“ bendir Hallfríður á og bætir við:

„Ef að líkum lætur mun stór hluti þessa fólks koma til starfa í ferðaþjónustu, en Ferðamálastofa spáir því að erlendir ferðamenn geti árið 2025 orðið á bilinu 2,8 milljónir, sem er lægsta spá, og 5,3 milljónir, sem er hæsta spá.“

Hún segir að búast megi við því að stærstur hluti nýrra innflytjenda sem ferðaþjónustan þarf á að halda á komandi árum muni koma frá Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem verið hafi hingað til, enda þurfi þeir, ólíkt fólki annars staðar frá, ekki að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi hér á landi í krafti EES-samningsins.

En Hallfríður bendir engu að síður á í rannsókn sinni að flóra útlendinga í ferðaþjónustunni hér á landi sé mjög fjölbreytt. Ef taka megi dæmi, séu hótelin rekin af ungu erlendu starfsfólki. Þar sé meginreglan komin.

Upplýsingum hafi verið safnað á um 21 hóteli sem skipst hafi til helminga á milli höfuðborgar og landsbyggðar. „Hlutfall innflytjenda á hótelum var 77 prósent á landsvísu og þar af voru Pólverjar um helmingur. Sem dæmi störfuðu á einu hóteli í Reykjavík samtals 36 starfsmenn af tólf ólíkum þjóðernum.“

Á landsbyggðinni hafi mátt finna hótel þar sem allt starfsfólk var erlent, en lægsta hlutfall þeirra hafi reynst 64 prósent, segir í rannsókn Hallfríðar Þórarinsdóttur.