Talið er að allt að fimmtán þúsund manns hafi komið saman á Trafalgar-torgi í Lundúnum í dag til að mótmæla ýmsum takmörkunum yfirvalda vegna COVID-19-faraldursins. Sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglumanna og voru nokkrir lögreglumenn í hópi þeirra sem færðir voru á sjúkrahús. Telja mótmælendur að aðgerðir yfirvalda gangi of langt.
Í frétt Sky News kemur fram að flöskum hafi meðal annars verið kastað í átt að lögreglumönnum og sumir þeirra hafi beitt kylfum til að verjast ágangi mótmælenda.
Aðeins sex einstaklingar mega koma saman á Englandi en mótmælin máttu fara fram svo lengi sem þátttakendur tryggðu að halda fjarlægð hver frá öðrum og andlitsgrímur yrðu notaðar.
Á myndum sést að þær reglur voru þverbrotnar og var það meðal annars ástæða þess að lögregla mætti á svæðið og leysti mótmælin upp.
Samskonar mótmæli fóru fram á Trafalgar-torgi síðasta laugardag en þá voru 32 handteknir.



