Talið er að allt að fimm­tán þúsund manns hafi komið saman á Trafalgar-torgi í Lundúnum í dag til að mót­mæla ýmsum tak­mörkunum yfir­valda vegna CO­VID-19-far­aldursins. Sló í brýnu milli mót­mælenda og lög­reglu­manna og voru nokkrir lög­reglu­menn í hópi þeirra sem færðir voru á sjúkra­hús. Telja mótmælendur að aðgerðir yfirvalda gangi of langt.

Í frétt Sky News kemur fram að flöskum hafi meðal annars verið kastað í átt að lög­reglu­mönnum og sumir þeirra hafi beitt kylfum til að verjast á­gangi mót­mælenda.

Að­eins sex ein­staklingar mega koma saman á Eng­landi en mót­mælin máttu fara fram svo lengi sem þátt­tak­endur tryggðu að halda fjar­lægð hver frá öðrum og and­lits­grímur yrðu notaðar.

Á myndum sést að þær reglur voru þver­brotnar og var það meðal annars á­stæða þess að lög­regla mætti á svæðið og leysti mót­mælin upp.

Sams­konar mót­mæli fóru fram á Trafalgar-torgi síðasta laugar­dag en þá voru 32 hand­teknir.

Mynd/Getty Images
Mynd/Getty Images
Mynd/Getty Images
Mynd/Getty Images