Viðsnúningur í rekstri fjögurra af fimm fjölmennustu sveitarfélögum landsins er tæpir 6 milljarðar króna milli ára. Þetta kemur fram í árshlutauppgjörum Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrar. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 var rekstrarafgangur upp á 2,3 milljarða króna en nú er 3,6 milljarða halli á rekstrinum. Tekjur hafa lækkað um 3,9 prósent og útgjöld aukist um 4,6 prósent.

Um 60 prósent landsmanna búa í þessum sveitarfélögum. Tölur liggja ekki fyrir um önnur sveitarfélög.

Sigurður Snævarr, hagfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að staðan hljóti að vera svipuð eða verri hjá mörgum smærri sveitarfélögum sem byggja afkomuna að stórum hluta á ferðaþjónustu. Það á til dæmis við mörg sveitarfélög á suðurströndinni. Einnig á Suðurnesjum þar sem flugsamgöngur eru stór breyta í efnahagnum. Ástandið sé skárra annars staðar.

„Við erum rétt að sjá toppinn á ísjakanum núna. Seinni hluti ársins verður mun verri,“ segir Sigurður.

Aðspurður um fjárhagsáætlanir segir Sigurður þær sem gerðar voru fyrir þetta ár vera ónýt plögg. Sveitarfélögin hafi þurft að bregðast við með gerð viðauka. Þessar áætlanir eru ekki lauslegar viðmiðanir heldur gilda um þær strangar reglur og ber sveitarfélögum að fara eftir þeim.

„Mörg sveitarfélög munu eiga í miklum erfiðleikum með að gera fjárhagsáætlun í haust,“ segir Sigurður. Ólíklegt sé að þær standist. „Víða sé ég stór göt, jafnvel þó að notaðar séu forsendur frá Hagstofunni og fleiri aðilum.“

Algengara er að sveitarfélögin bregðist við með lántöku frekar en skerðingu á þjónustu. Eru mörg þeirra að ganga frá lánasamningum eða stefna að því von bráðar. Hjá fyrrnefndum fjórum sveitarfélögum hafa skuldir hækkað um rúma 10 milljarða og lántökur umfram afborganir eru 6,8 milljarðar. Stærstur hluti þjónustunnar er grunnþjónusta sem ákveðin er af ríkinu og hana má ekki skerða.

Sambandið hefur ítrekað bent á að lítil raunfylgni sé milli fjármagnsins sem ríkið útdeilir til sveitarfélaganna til að sinna þjónustunni og krafna sem gerðar séu. „Þjónusta við fatlaða er til dæmis ákaflega dýr og erfitt að draga eitthvað úr henni,“ segir Sigurður.

Einnig hafa málefni hjúkrunarheimila mikið verið til umræðu. Akureyri, Vestmannaeyjar, Hornafjörður og Fjarðabyggð hafa sagt upp þjónustusamningum við ríkið eftir að hafa greitt hundruð milljóna með rekstrinum undanfarin ár. Samkvæmt Sigurði greiða sveitarfélögin minnst einn milljarð króna á ári með hjúkrunarheimilunum.

Aðspurður um leiðir ríkisins til þess að aðstoða sveitarfélögin segir Sigurður breytingu á útsvari vera eina leið. Í skýrslu nefndar sveitarstjórnarráðherra um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna sagði að útsvar hafi lækkað um 11 milljarða króna vegna faraldursins. Aðstoð með framfærslu væri önnur leið. Áætlað er að þeim sem þurfa framfærslu fjölgi um 60 prósent í vetur. Þá væri einnig hægt að auka fé í Jöfnunarsjóð en samkvæmt uppgjörunum hafa framlög úr honum dregist saman um 2,2 prósent.

Þá kemur fram að fjárfestingar­áætlanir hafi dregist saman um nær 19 prósent frá 2019. Í vor var kallað eftir auknum fjárfestingum sveitarfélaga til að mæta samdrættinum. Sigurður hefur ekki áhyggjur af því að viðhald sitji á hakanum eða uppbygging minnki verulega. Komið hafi í ljós að ástæðan sé tafir vegna faraldursins. Enn sé stefnt að því að standa við fjárfestingarnar.