Tilmæli um að fólk skuli halda sig heima vegna kóróna­veirunnar renna út í fjölda ríkja í Bandaríkjunum í dag. Slakað verður á aðgerðum í mörgum þeirra og mun fólk í ríkjum á borð Arizona og Nýju Mexíkó geta sótt veitingastaði og hársnyrtistofur á nýjan leik.

Yfir 1,4 milljónir COVID-19 tilfella ahafa greinst Í Bandaríkjunum og hafa tæplega 85 þúsund Bandaríkjamenn látið lífið af völdum veirunnar.

Ráðstafanir Bandaríkjastjórnar um fjarlægðarviðmið runnu út í Bandaríkjunum 1. maí. Þá sagðist Donald Trump Bandaríkjaforseti ekki munu framlengja þær heldur væru þær komnar á könnu ríkisstjóranna.

Ráðstafanir vegna faraldursins hafa verið mismiklar milli ríkja, þar á meðal tilmæli stjórnvalda um hversu lengi fólk skyldi halda sig innandyra. Meira en helmingur ríkja er byrjaður að opna hagkerfi sín á ný eða hyggst gera það á næstunni.

Flest ríkin uppfylla þó ekki þau skilyrði sem ríkisstjórnin mælist til að séu uppfyllt áður en viðskipta- og félagsstarf geti hafist á nýjan leik. Skilyrðin fela meðal annars í sér að fjöldi greindra tilfella og fjöldi sjúklinga sé á niðurleið. Það á ekki við í mörgum ríkjanna.

Í Wisconsin höfðu löggjafar Repúblikana betur gegn Demókrötum þegar hæstiréttur hafnaði því að tilmæli stjórnvalda til almennings um að halda sig heima yrðu framlengd til 26. maí.

„Þessi tilraun til að stjórna nánast öllum þáttum í lífi einstaklingsins er eitthvað sem við tengjum venjulega við fangelsi, ekki frjálst samfélag sem stjórnast af réttarríki,“ skrifaði Daniel Kelly hæstaréttardómari um úrskurðinn.

Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, varaði öldungadeildarþingmenn í vikunni við að ef landið yrði opnað of snemma gætu afleiðingarnar orðið alvarlegar.

„Þetta mun ekki einungis valda óþarfa þjáningu og dauðsföllum heldur einnig aftra okkur frá því að hverfa aftur til venjulegs lífs,“ sagði Fauci um hættuna við að fylgja ekki leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda. Þá sagði hann einnig að skólar ættu að vera áfram lokaðir næsta haust.

Trump er ósammála Fauci og vill opna landið sem fyrst. „Við ætl­um að opna landið okk­ar. Fólk vill að það verði opnað, og skól­arn­ir verða opnaðir,“ sagði hann á blaðamannafundi.