Búið er að taka mikið af hættulegum barnavörum úr sölu hér á landi en töluverður tregi er oft meðal neytenda að skila vörum sem hafa verið innkallaðar.

Nýverið kom út skýrsla CASP 2020, sameiginlegt átak eftirlitsstofnana í Evrópu, þar kom í ljós að ýmsir vankantar voru á vörum í sölu hér á landi. Öryggi barnavara og leikfanga var hjá Neytendastofu en var nýverið flutt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS.

Guðrún Lárusdóttir, sérfræðingur hjá HMS, sem var teymisstjóri vöruöryggi hjá Neytendastofu, segir að þegar Ísland hóf þátttöku í átaksverkefnum Evrópusambandsins fyrir tíu árum hafi lítið sem ekkert eftirlit verið með vörum fyrir börn. „Þegar við byrjuðum í þessu samstarfi áttum við þann vafasama heiður að eiga alltaf lélegustu vörurnar. Þess vegna höfum við verið að einblína á vörur fyrir börn“ segir hún. Staðan er því gjörbreytt í dag.

Svokölluð hreiður hafa verið mjög vinsæl hér á landi síðustu ár. Guðrún segir að ung börn eigi ekki að sofa í þeim.
Fréttablaðið/Getty

Mátti rekja ungbarnadauða til hreiðra

Í CASP 2020 átakinu var því sérstaklega litið til vara á borð við vöggur sem festar eru á annað rúm, ungbarnastóla, ungbarnahreiður, útileikföng og klifurgrindur sem notaðar eru innandyra, svokallaða pikklera.

„Við höfum ekki haft aðgang eða fáum upplýsingar um slys sem verða vegna vöru sem við höfum eftirlit með, eins og með barnavörum. Það væri mjög gagnlegar upplýsingar fyrir forgangsröðun í eftirliti og til að við sæjum ef fylgni væri á milli ákveðinnar vöru og slysatíðni,“ segir Guðrún . Í löndum á borð við Bretland og Holland, er slysaskráning mjög góð, til dæmis voru skoðuð ungbarnahreiður vegna þess að það mátti rekja nokkur dæmi um ungbarnadauða til þeirra.

Ung börn eiga helst að liggja flöt á hörðu yfirborði, því geta ömmustólar verið varasamir.
Fréttablaðið/Getty

Telur hún þó ólíklegt að slíkt hafi átt sér stað á Íslandi en ungabörn eigi alls ekki sofa í þeim. Ástæðan er sú að dýnan er mjúk og það getur myndast bil á milli botns hreiðursins og hliðanna. Ef barnið snýr höfðinu, getur það fest sig í bilinu á milli hliðar og botns sem getur leitt til köfnunar. Í kjölfar átaksins nú unnið að sérstökum staðli sem notaður verður til að gera hreiður örugg í framtíðinni.

Sendu pikkler til Ítalíu

„Í kjölfar þessa verkefnis CASP 2020 þá fórum við skoða pikklera,“ segir Guðrún. Eintak var sent til Ítalíu til prófunar. „Útkoman var bara ekki góð. Leikfangið felur í sér hengingarhættu þar sem börn geta fest höfuðið á milli rimla á klifurgrindinni auk þess sem piklerinn var mjög valtur.“ Í kjölfar voru innkallaðir og stöðvuð sala á fjölda pikklera þar sem í ljós kom að sami galli reyndist vera á mörgum grindum Eru nú öruggar vörur þegar komnar á markaðinn hér á landi.

Mörg fleiri dæmi eru um vörur sem hafa ekki verið fullprófaðar, til dæmis barnabílstóla sem snúast, ekki hefur verið fullkannað áhrif hliðaráverka á slíka stóla. Þá eru einnig dæmi um að leiðbeiningum sé ekki fylgt, til dæmis með öryggishlið sem eru ekki hönnuð til að vera við stiga.

Guðrún er ánægð með markaðsaðila hér á landi, sjaldgæft sé að mótþrói sé við innköllun.

„Erlendis þykir þetta neikvætt, hér þykir það bara jákvætt að verið sé að passa upp á gæðaeftirlit. Það hjálpar mjög mikið.“

Hér má nálgast ítarefni CASP2020, gögnin eru á ensku.

CASP_Niðurstöður.pdf

CASP2020_Hreiður.pdf