Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Föstudagur 2. desember 2022
22.45 GMT

„Ég hætti að brjóta af mér um leið og ég byrjaði í þessari skaða­minnkandi með­ferð,“ segir Hörður Hákon Jóns­son, oftast kallaður Hákon, sem hefur núna í tvö ár fengið á­vísað morfíni í litlu magni frá lækni í svo­kallaðri skaða­­minnkandi með­ferð. Hann hefur verið háður morfíni í meira en ára­tug en segir að núna, í fyrsta sinn, hann hafa von um betra líf.

Hákon er að verða fimm­tugur og byrjaði eins og svo margir að fikta við á­fengi á ung­lings­árum. Það leiddi í kanna­bis og svo am­feta­mín og síðar contal­gin og annað morfín.

„Maður fann alveg fyrir alkó­hól­istanum í sér strax á ung­lings­árunum,“ segir Hákon sem ólst upp hjá góðri fjöl­skyldu á Sel­tjarnar­nesi. Hann er ætt­leiddur, á níu al­syst­kin og eina ætt­leidda upp­eldis­systur. Hann segist þakk­látur fyrir upp­eldi sitt og for­eldra sína en þau eru bæði látin.

„Ég átti mjög góða æsku og for­eldra sem stóðu með mér. Það vantaði ekki.“

Náði ekki að fóta sig í skóla

Hákon kláraði grunn­skóla en menntaði sig ekki meira. Hann er með mikinn at­hyglis­brest sem að hann hefur aldrei fengið al­menni­lega að­stoð við og átti því erfitt upp­dráttar í skóla og fannst hann ekki passa inn í skóla­kerfið.

„Þessi neysla hefur tekið sinn toll. Ég er góður að vinna og get vonandi farið aftur á vinnu­markaðinn. Það er það sem mig langar að gera,“ segir Hákon sem er húsa­málari en hann hefur ekki verið í fastri vinnu í um sex ár sökum vímu­efna­vanda.

Af hverju vildirðu stíga fram og segja þína sögu?

„Það kom læknir ný­lega fram, Árni Tómas, en hann hefur verið að skrifa í blöðin um þá skaða­­minnkandi með­ferð sem ég hef verið að fá. Ég hélt að ef ég stigi fram líka þá myndi það hjálpa mál­staðnum,“ segir Hákon ein­lægur. „Ég vildi segja fólki hvað þetta hefur gert fyrir mig, á já­kvæðu nótunum. Þetta er mér hjartans mál. Áður en ég byrjaði í þessari með­ferð var ég háður morfíni upp á dag, í tíu ár, var að harka á götunni og þurfti að redda mér á hverjum degi, oft með af­brotum og neyðin varð alltaf al­var­legri.“

„Ég er sam­mála því sem Árni Tómas hefur verið að gera með þessari skaða­minnkandi með­ferð. Hann hefur bjargað manns­lífum með þessu og á sama tíma náð að breyta lífi fólks og gefa því mann­sæmandi líf.“

„Ég hélt að ef ég stigi fram líka þá myndi það hjálpa mál­staðnum,“ segir Hákon ein­lægur
Fréttablaðið/Valli

Hrun svarta markaðarins

Hákon segist full­viss um það að hægt sé að nýta þessa skaða­minnkandi með­ferð fyrir fleiri lyf og að ef það yrði gert þá myndi svarti markaðurinn, með lyf­seðils­skyld lyf, hrynja.

„Það er miklu betra fyrir fólk að fá þessi lyf hjá lækni. Þetta á ekki að vera í höndunum á ein­hverju fólki út í bæ sem er að reyna að græða peninga á veikindum annarra. Það hefur verið þannig í allt of mörg ár. Margir sem selja þessi efni eru ekki fíklar og það er á þeim svaka­leg á­byrgð, sem þau fara bara ekkert alltaf vel með.“

„Það þarf að taka þessi lyf og efni frá sölu­aðilunum og setja þau í hendurnar á fag­aðilum sem kunna að með­höndla þessi lyf sem við erum háð, fólk sem er með menntun til þess. Þá þurfum við ekki að beygja og hneigja fyrir sölu­aðilum á svarta markaðinum og þetta er líka öryggis­mál fyrir okkur. Svarti markaðurinn blómstrar á meðan læknar taka ekki á­byrgð og skrifa út þessi lyf fyrir veikasta hópinn, að sjálf­sögðu innan við­miða og reglna.

Hákon segir að honum finnist best að fá lyfið í skömmtun á hverjum degi, og er mjög hrein­skilinn með það að hann geti lík­lega ekki fengið meira í einu án þess að mis­nota það.

Best að fá lyfin á hverjum degi

„Það er best fyrir mig að fá bara lyf fyrir hvern dag og þannig eru reglurnar í þessari með­ferð, annars myndi þetta enda í rugli hjá mér og ég væri búinn með lyfin eftir nokkra daga,“ segir hann og hlær.

Er skammturinn alltaf sá sami, skiptir það ekki líka máli?

„Jú, það minnkar líkurnar á að þú farir þér að voða, of­skammtir eða deyir, vegna þess að fólk er þá ekki að nota önnur morfín­lyf með lyfjunum sem það er að fá. Það er öruggast að fá alltaf sömu skammta­stærðina. Þannig er fólk bara að rétta sig af til að geta fúnkerað og verið í jafn­vægi.“

Í tengslum við þetta minnist Hákon á af­glæpa­væðingu neyslu­skammta sem einnig er honum mikið hjartans mál, og sér­stak­lega fyrir þau sem ekki hafa komist í þessa með­ferð.

Gerð að glæpa­mönnum

„Það er verið að gera okkur að glæpa­mönnum, ofan á allt hitt. Það hefur litað allt okkur líf, við höfum setið í fangelsum og verið brenni­merkt. Þetta er enda­laus hring­ekja og þetta er ekki hjálp­legt fyrir neinn,“ segir hann og heldur á­fram;

„Fólk er stundum búið selja sál og líkama fyrir skammtinn sinn. Lög­reglan veit ekki hvað er í gangi innra með mann­eskjunum og það getur verið mjög hættu­legt að taka neyslu­skammta af fólki. Það getur orðið mjög veikt og setur það í mikla neyð.“

Hann segir að annað sem lyfja­skömmtunin geri sé að auka nánd þeirra sem njóta hennar við heil­brigðis­kerfið og að það hafi minnkað þá for­dóma sem hann hefur alla jafna fundið fyrir í heil­brigðis­kerfinu.

Hann út­skýrir að fólk sem notar vímu­efni í æð þarf að passa vel upp á búnað og hrein­læti til að koma í veg fyrir sýkingar en ef þær komi þá þurfi þau á að­stoð heil­brigðis­starfs­fólks að halda.

„Eftir að Frú Ragn­heiður byrjaði þá hefur þessum sýkingum fækkað,“ segir hann en þar getur fólk fengið hreinan búnað, að­stoð við sár og fengið sýkla­lyf. „Svo er Nal­oxonið auð­vitað að bjarga miklu líka,“ segir Hákon en á þessu ári var Nal­oxone nef­úði í fyrsta sinn gerður að­gengi­legur í Frú Ragn­heiði, lyfið er notað til þess að draga úr á­hrifum of­­skömmtunar af ópíóíðum.

„Frú Ragn­heiður hefur gert svaka­lega gott starf með því að dreifa búnaði. Heil­brigðis­kerfið er búið að bregðast okkur svo mikið. For­dómarnir þar eru svo miklir.“

Hákon segir fordómana mjög mikla í samfélaginu.
Fréttablaðið/Valli

Fjöru­tíu með­ferðir að baki

Hákon hefur farið í alls um 40 með­ferðir á Vogi auk þess sem hann hefur farið í fram­halds­með­ferðir á Staðar­felli, Hlað­gerðar­koti og Krýsu­vík. Hann hefur prófað við­halds­með­ferðir á Vogi með Suboxone-lyfinu en segir að ekkert þessara úr­ræða myndu hjálpað honum dag.

„Ég hef náð góðum tíma edrú inn á milli. Ég hef líka strögglað mikið edrú. Ég hef prófað þetta allt, og Suboxone er ekki fyrir alla. Ég er auð­vitað ekki læknir en það segir mér svo­lítið, að morfínið sem ég er á hefur minni frá­hvörf en suboxone frá­hvörfin og eru ekki varan­leg.“

Ég hef náð góðum tíma edrú inn á milli. Ég hef líka strögglað mikið edrú. Ég hef prófað þetta allt, og Suboxone er ekki fyrir alla.

Hann segir að eitt sinn hafi hann þurft að leggjast inn tíu sinnum á Vog eitt árið, því þá hafi hann verið í Suboxone við­halds­með­ferð hjá SÁÁ. „Ég var alltaf að missa Suboxone því ég náði ekki að fylgja reglunum þeirra í að vera 100 prósent edrú. Manni leið eins og maður væri bara kominn með annan dóp­sala,“ segir Hákon og að skil­yrðin hjá SÁÁ séu mjög ströng til að komast í við­halds­með­ferð.

„Fólk þarf síðan að pissa reglu­lega í glas, eins og gert er í fangelsum, og ef þú ert ekki alveg edrú, þá er þér refsað fyrir það og getur misst Suboxonið þitt, sem er lífs­hættu­legt fyrir veikt fólk. Sjúk­dóms­hug­takið er fokið út um gluggann við svona með­ferð á morfínneyt­endum. Í dag, er ég ekki að nota til að vera dópaður og vil ekki vera úti með fólki sem sést vel á að sé í vímu. Ég nota bara mín lyf, og that‘s it. Það gefur mér þann kost að geta verið hér og talað við þig, ég fúnkera núna.“

Er þetta sam­bæri­legt og hjá ein­hverjum sem er að kljást við þung­lyndi?

„Já, þetta er bara lyfið mitt. Við byrjum mörg á að vera með ein­hvern undir­liggjandi vanda eða mikla verki og svo leiðist það út í að vera háður lyfjunum, en yfir­leitt byrjar þetta þannig.“


Já, ég hef misst marga. Það er mikil sorg í þessum hópi og ef við pælum of mikið í því þá verður maður allt of sorg­mæddur. En maður bítur bara á jaxlinn


Fíknin sterk og á­föllin erfið

Hákon segir marg­þættar á­stæður fyrir því að hann hafi ekki náð að hætta hingað til, bæði sé fíknin afar sterk en eins þá skipti fé­lags­legar að­stæður miklu máli og hvað sé í boði fyrir fólk þegar það er orðið edrú.

„Þegar það fer að renna af fólki þá koma upp allar til­finningarnar. Það geta verið undir­liggjandi á­föll og það er meira en að segja það að díla við það. Ef fé­lags­legu að­stæðurnar eru í lagi þá kannski sér maður meiri á­stæðu til þess að fara og reyna að vera edrú. En oft sér maður ekki til­ganginn til að vera edrú þegar allt er uppi á móti manni.“

Fjallað var um það fyrr á árinu að lyfja­tengdum and­látum hafi fjölgað og þau hafi aldrei verið fleiri. Hákon segir það ekki hafa farið fram hjá sér.

Þegar það fer að renna af fólki þá koma upp allar til­finningarnar.

„Já, ég hef misst marga. Það er mikil sorg í þessum hópi og ef við pælum of mikið í því þá verður maður allt of sorg­mæddur. En maður bítur bara á jaxlinn. Tölum svo ekki um fólkið sem hefur misst börnin sín frá sér. Það er alveg hræði­legt að horfa á það. Þetta er rosa­legt á­fall og það eru helst konurnar sem burðast með þetta stöðugt á sér. Þær verða edrú og þá finna þær þetta allt og þess vegna eru þær svo margar hræddar við að verða edrú.“

Hákon segir handleiðslu mikilvæga fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í að sprauta sig.
Fréttablaðið/Valli

Hand­leiðsla lykil­at­riði

Það hefur verið rætt um að á Ís­landi skorti skaða­minnkandi úr­ræði, eins og að það sé að­gengi að upp­lýsingum um öruggari vímu­efna­notkun, skammta­stærðir og hættunni á of­­skömmtun. Hvað heldurðu með það?

„Það skiptir mjög miklu að fólk fái réttar upp­lýsingar um þetta allt. Um smit­hættur og um vímu­efnin. Það dregur úr því að fólk fari sér ekki að voða. Þegar fólk byrjar að nota vímu­efni í æð er mikil­vægt að það fái hand­leiðslu til að tryggja öryggi þess. Skömmin er á­stæðan fyrir að margir leita sér ekki að­stoðar og vit­neskju eins og hægt er að fá hjá Frú Ragn­heiði. Það er út af ótta við að vera dæmdur og að það fréttist. Þess vegna er mikil­vægt að hægt sé að nálgast öruggar upp­lýsingar um þetta raf­rænt og það þarf að fara að koma því á lag­girnar, og það er mikil­vægt að það sé á ís­lensku og að­gengi­legt,“ segir Hákon á­kveðinn.

Þú talar um hik, hikar fólk al­mennt við að leita í heil­brigðis­kerfið?

„Já, eðli­lega. Fólk hefur lent svo illa í for­dómum þar. Það er komið fram við það eins og annars flokks fólk í staðinn fyrir að það sé komið fram við það eins og hvern annan sjúk­ling. Ég veit um fólk hefur verið komið með drep og orðið al­var­lega veikt en fer samt ekki. Auð­vitað er inn á milli gott fólk sem gerir góða hluti. Ég tek það alls ekki af því, en það er þetta með for­dómana sem er svo sárt fyrir fólki, það er skortur á þekkingu. Mér finnst skrítið að þetta sé enn svona árið 2022.“

Hvað með að­stand­endur?

„Ef ein­hver ein­stak­lingur í fjöl­skyldunni verður fíkill þá er honum stundum sparkað út um dyrnar og látið eins og hann sé ekki til. Það er ekki leiðin. Ef ein­hver verður veikur þá er ekki komið svona fram við mann­eskjur. Maður sér þetta oft, það er eins og fólk sé bara dáið þegar það er það ekki. Fjöl­skyldan mín gerði það aldrei en ég hugsa til þess að ef ég hefði til dæmis fengið þessa skaða­minnkandi með­ferð áður en mamma dó þá hefði ég getað sinnt henni betur og fengið meiri tíma með henni, í stað þess að vera alltaf að redda mér allan daginn,“ segir Hákon.


Fólk sem er að fá þessa með­ferð, getur allt í einu verið í skóla, verið í vinnu og nær að halda hús­næði


Úr­ræði sem verður að bæta við

Hákon segir að hann fagni því að skaða­minnkandi með­ferðin sem hann fær sé rædd opin­ber­lega í fjöl­miðlum en finnst sárt þegar fólk er að tala án þess að hafa nokkra þekkingu á málinu eða skilning á sögu fólksins sem um ræðir.

Hann telur nauð­syn­legt að gera skaða­minnkandi með­ferðina form­lega og að það standi fólki með þungan vímu­efna­vanda til boða sem hafi reynt allt annað en án árangurs.

„Þetta á ekki að vera það fyrsta sem fólk reynir. Þetta á að vera allra seinasti kosturinn og það þurfa að vera skil­yrði og við­mið, þetta ætti helst ekki að vera fyrir of ungt fólk. Ég er að verða fimm­tugur og er búinn að vera í þessu í tíu ár. Allir sem fá þessa skaða­minnkandi með­ferð hafa reynt allt sem er í boði. Það hefur ekki gengið upp og mér finnst miklu frekar að þetta eigi þá að vera í boði fyrir veikasta hópinn, og að ráða­menn geti ekki þvegið hendur sínar af þessu og látið eins og þessi vandi sé ekki til staðar.“

Hann segir breytinguna sem verður á fólki sem kemst í þessa skaða­minnkandi með­ferð í raun ó­trú­lega.

„Fólk sem er að fá þessa með­ferð, getur allt í einu verið í skóla, verið í vinnu og nær að halda hús­næði. Þetta gefur fólki kost á öllu þessu og að halda á­fram með líf sitt. Það fær einnig tæki­færi á að taka á sínum undir­liggjandi vanda sem hefur þurft að sitja lengi á hakanum. Með­ferðin hefur mikil já­kvæð á­hrif og hefur reynst þeim mjög vel sem eru á henni, ég hef séð það með mínum eigin augun.“

Hákon hefur gengið í gegnum ýmis­legt um ævina. Hann hefur þurft að búa á götunni og á að baki sögu um af­brot og hefur í tví­gang setið í fangelsi fyrir þau, fyrir um þremur ára­tugum. Brot hans má tengja beint við þann vímu­efna­vanda sem hann hefur verið að kljást við og þörfinni á því að ein­hvern veginn fjár­magna hann.

„Þetta kostar og þess vegna vinnur fólk baki brotnu við að redda sér. Ég er núna í sam­fé­lags­þjónustu og hef verið í því í sirka tvo mánuði og ég gæti ekkert verið þar ef ég væri ekki í þessari skaða­minnkandi með­ferð. Ég veit ekki hvernig ég fór að þessu fyrir með­ferðina. Þetta var svo erfitt, en maður sá það ekki þá. Maður þurfti að brjóta af sér alla daga, en þegar ég byrjaði í þessari með­ferð þá hætti ég alveg að brjóta af mér. Því ég þurfti þess ekki lengur og hafði þá enga á­stæðu til að gera það.“

Hvernig er sú til­finning?

„Of­boðs­lega góð. Ég hef loksins öðlast mann­sæmandi líf.“

Athugasemdir