„Ég hætti að brjóta af mér um leið og ég byrjaði í þessari skaðaminnkandi meðferð,“ segir Hörður Hákon Jónsson, oftast kallaður Hákon, sem hefur núna í tvö ár fengið ávísað morfíni í litlu magni frá lækni í svokallaðri skaðaminnkandi meðferð. Hann hefur verið háður morfíni í meira en áratug en segir að núna, í fyrsta sinn, hann hafa von um betra líf.
Hákon er að verða fimmtugur og byrjaði eins og svo margir að fikta við áfengi á unglingsárum. Það leiddi í kannabis og svo amfetamín og síðar contalgin og annað morfín.
„Maður fann alveg fyrir alkóhólistanum í sér strax á unglingsárunum,“ segir Hákon sem ólst upp hjá góðri fjölskyldu á Seltjarnarnesi. Hann er ættleiddur, á níu alsystkin og eina ættleidda uppeldissystur. Hann segist þakklátur fyrir uppeldi sitt og foreldra sína en þau eru bæði látin.
„Ég átti mjög góða æsku og foreldra sem stóðu með mér. Það vantaði ekki.“
Náði ekki að fóta sig í skóla
Hákon kláraði grunnskóla en menntaði sig ekki meira. Hann er með mikinn athyglisbrest sem að hann hefur aldrei fengið almennilega aðstoð við og átti því erfitt uppdráttar í skóla og fannst hann ekki passa inn í skólakerfið.
„Þessi neysla hefur tekið sinn toll. Ég er góður að vinna og get vonandi farið aftur á vinnumarkaðinn. Það er það sem mig langar að gera,“ segir Hákon sem er húsamálari en hann hefur ekki verið í fastri vinnu í um sex ár sökum vímuefnavanda.
Af hverju vildirðu stíga fram og segja þína sögu?
„Það kom læknir nýlega fram, Árni Tómas, en hann hefur verið að skrifa í blöðin um þá skaðaminnkandi meðferð sem ég hef verið að fá. Ég hélt að ef ég stigi fram líka þá myndi það hjálpa málstaðnum,“ segir Hákon einlægur. „Ég vildi segja fólki hvað þetta hefur gert fyrir mig, á jákvæðu nótunum. Þetta er mér hjartans mál. Áður en ég byrjaði í þessari meðferð var ég háður morfíni upp á dag, í tíu ár, var að harka á götunni og þurfti að redda mér á hverjum degi, oft með afbrotum og neyðin varð alltaf alvarlegri.“
„Ég er sammála því sem Árni Tómas hefur verið að gera með þessari skaðaminnkandi meðferð. Hann hefur bjargað mannslífum með þessu og á sama tíma náð að breyta lífi fólks og gefa því mannsæmandi líf.“

Hrun svarta markaðarins
Hákon segist fullviss um það að hægt sé að nýta þessa skaðaminnkandi meðferð fyrir fleiri lyf og að ef það yrði gert þá myndi svarti markaðurinn, með lyfseðilsskyld lyf, hrynja.
„Það er miklu betra fyrir fólk að fá þessi lyf hjá lækni. Þetta á ekki að vera í höndunum á einhverju fólki út í bæ sem er að reyna að græða peninga á veikindum annarra. Það hefur verið þannig í allt of mörg ár. Margir sem selja þessi efni eru ekki fíklar og það er á þeim svakaleg ábyrgð, sem þau fara bara ekkert alltaf vel með.“
„Það þarf að taka þessi lyf og efni frá söluaðilunum og setja þau í hendurnar á fagaðilum sem kunna að meðhöndla þessi lyf sem við erum háð, fólk sem er með menntun til þess. Þá þurfum við ekki að beygja og hneigja fyrir söluaðilum á svarta markaðinum og þetta er líka öryggismál fyrir okkur. Svarti markaðurinn blómstrar á meðan læknar taka ekki ábyrgð og skrifa út þessi lyf fyrir veikasta hópinn, að sjálfsögðu innan viðmiða og reglna.
Hákon segir að honum finnist best að fá lyfið í skömmtun á hverjum degi, og er mjög hreinskilinn með það að hann geti líklega ekki fengið meira í einu án þess að misnota það.
Best að fá lyfin á hverjum degi
„Það er best fyrir mig að fá bara lyf fyrir hvern dag og þannig eru reglurnar í þessari meðferð, annars myndi þetta enda í rugli hjá mér og ég væri búinn með lyfin eftir nokkra daga,“ segir hann og hlær.
Er skammturinn alltaf sá sami, skiptir það ekki líka máli?
„Jú, það minnkar líkurnar á að þú farir þér að voða, ofskammtir eða deyir, vegna þess að fólk er þá ekki að nota önnur morfínlyf með lyfjunum sem það er að fá. Það er öruggast að fá alltaf sömu skammtastærðina. Þannig er fólk bara að rétta sig af til að geta fúnkerað og verið í jafnvægi.“
Í tengslum við þetta minnist Hákon á afglæpavæðingu neysluskammta sem einnig er honum mikið hjartans mál, og sérstaklega fyrir þau sem ekki hafa komist í þessa meðferð.
Gerð að glæpamönnum
„Það er verið að gera okkur að glæpamönnum, ofan á allt hitt. Það hefur litað allt okkur líf, við höfum setið í fangelsum og verið brennimerkt. Þetta er endalaus hringekja og þetta er ekki hjálplegt fyrir neinn,“ segir hann og heldur áfram;
„Fólk er stundum búið selja sál og líkama fyrir skammtinn sinn. Lögreglan veit ekki hvað er í gangi innra með manneskjunum og það getur verið mjög hættulegt að taka neysluskammta af fólki. Það getur orðið mjög veikt og setur það í mikla neyð.“
Hann segir að annað sem lyfjaskömmtunin geri sé að auka nánd þeirra sem njóta hennar við heilbrigðiskerfið og að það hafi minnkað þá fordóma sem hann hefur alla jafna fundið fyrir í heilbrigðiskerfinu.
Hann útskýrir að fólk sem notar vímuefni í æð þarf að passa vel upp á búnað og hreinlæti til að koma í veg fyrir sýkingar en ef þær komi þá þurfi þau á aðstoð heilbrigðisstarfsfólks að halda.
„Eftir að Frú Ragnheiður byrjaði þá hefur þessum sýkingum fækkað,“ segir hann en þar getur fólk fengið hreinan búnað, aðstoð við sár og fengið sýklalyf. „Svo er Naloxonið auðvitað að bjarga miklu líka,“ segir Hákon en á þessu ári var Naloxone nefúði í fyrsta sinn gerður aðgengilegur í Frú Ragnheiði, lyfið er notað til þess að draga úr áhrifum ofskömmtunar af ópíóíðum.
„Frú Ragnheiður hefur gert svakalega gott starf með því að dreifa búnaði. Heilbrigðiskerfið er búið að bregðast okkur svo mikið. Fordómarnir þar eru svo miklir.“

Fjörutíu meðferðir að baki
Hákon hefur farið í alls um 40 meðferðir á Vogi auk þess sem hann hefur farið í framhaldsmeðferðir á Staðarfelli, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvík. Hann hefur prófað viðhaldsmeðferðir á Vogi með Suboxone-lyfinu en segir að ekkert þessara úrræða myndu hjálpað honum dag.
„Ég hef náð góðum tíma edrú inn á milli. Ég hef líka strögglað mikið edrú. Ég hef prófað þetta allt, og Suboxone er ekki fyrir alla. Ég er auðvitað ekki læknir en það segir mér svolítið, að morfínið sem ég er á hefur minni fráhvörf en suboxone fráhvörfin og eru ekki varanleg.“
Ég hef náð góðum tíma edrú inn á milli. Ég hef líka strögglað mikið edrú. Ég hef prófað þetta allt, og Suboxone er ekki fyrir alla.
Hann segir að eitt sinn hafi hann þurft að leggjast inn tíu sinnum á Vog eitt árið, því þá hafi hann verið í Suboxone viðhaldsmeðferð hjá SÁÁ. „Ég var alltaf að missa Suboxone því ég náði ekki að fylgja reglunum þeirra í að vera 100 prósent edrú. Manni leið eins og maður væri bara kominn með annan dópsala,“ segir Hákon og að skilyrðin hjá SÁÁ séu mjög ströng til að komast í viðhaldsmeðferð.
„Fólk þarf síðan að pissa reglulega í glas, eins og gert er í fangelsum, og ef þú ert ekki alveg edrú, þá er þér refsað fyrir það og getur misst Suboxonið þitt, sem er lífshættulegt fyrir veikt fólk. Sjúkdómshugtakið er fokið út um gluggann við svona meðferð á morfínneytendum. Í dag, er ég ekki að nota til að vera dópaður og vil ekki vera úti með fólki sem sést vel á að sé í vímu. Ég nota bara mín lyf, og that‘s it. Það gefur mér þann kost að geta verið hér og talað við þig, ég fúnkera núna.“
Er þetta sambærilegt og hjá einhverjum sem er að kljást við þunglyndi?
„Já, þetta er bara lyfið mitt. Við byrjum mörg á að vera með einhvern undirliggjandi vanda eða mikla verki og svo leiðist það út í að vera háður lyfjunum, en yfirleitt byrjar þetta þannig.“
Já, ég hef misst marga. Það er mikil sorg í þessum hópi og ef við pælum of mikið í því þá verður maður allt of sorgmæddur. En maður bítur bara á jaxlinn
Fíknin sterk og áföllin erfið
Hákon segir margþættar ástæður fyrir því að hann hafi ekki náð að hætta hingað til, bæði sé fíknin afar sterk en eins þá skipti félagslegar aðstæður miklu máli og hvað sé í boði fyrir fólk þegar það er orðið edrú.
„Þegar það fer að renna af fólki þá koma upp allar tilfinningarnar. Það geta verið undirliggjandi áföll og það er meira en að segja það að díla við það. Ef félagslegu aðstæðurnar eru í lagi þá kannski sér maður meiri ástæðu til þess að fara og reyna að vera edrú. En oft sér maður ekki tilganginn til að vera edrú þegar allt er uppi á móti manni.“
Fjallað var um það fyrr á árinu að lyfjatengdum andlátum hafi fjölgað og þau hafi aldrei verið fleiri. Hákon segir það ekki hafa farið fram hjá sér.
Þegar það fer að renna af fólki þá koma upp allar tilfinningarnar.
„Já, ég hef misst marga. Það er mikil sorg í þessum hópi og ef við pælum of mikið í því þá verður maður allt of sorgmæddur. En maður bítur bara á jaxlinn. Tölum svo ekki um fólkið sem hefur misst börnin sín frá sér. Það er alveg hræðilegt að horfa á það. Þetta er rosalegt áfall og það eru helst konurnar sem burðast með þetta stöðugt á sér. Þær verða edrú og þá finna þær þetta allt og þess vegna eru þær svo margar hræddar við að verða edrú.“

Handleiðsla lykilatriði
Það hefur verið rætt um að á Íslandi skorti skaðaminnkandi úrræði, eins og að það sé aðgengi að upplýsingum um öruggari vímuefnanotkun, skammtastærðir og hættunni á ofskömmtun. Hvað heldurðu með það?
„Það skiptir mjög miklu að fólk fái réttar upplýsingar um þetta allt. Um smithættur og um vímuefnin. Það dregur úr því að fólk fari sér ekki að voða. Þegar fólk byrjar að nota vímuefni í æð er mikilvægt að það fái handleiðslu til að tryggja öryggi þess. Skömmin er ástæðan fyrir að margir leita sér ekki aðstoðar og vitneskju eins og hægt er að fá hjá Frú Ragnheiði. Það er út af ótta við að vera dæmdur og að það fréttist. Þess vegna er mikilvægt að hægt sé að nálgast öruggar upplýsingar um þetta rafrænt og það þarf að fara að koma því á laggirnar, og það er mikilvægt að það sé á íslensku og aðgengilegt,“ segir Hákon ákveðinn.
Þú talar um hik, hikar fólk almennt við að leita í heilbrigðiskerfið?
„Já, eðlilega. Fólk hefur lent svo illa í fordómum þar. Það er komið fram við það eins og annars flokks fólk í staðinn fyrir að það sé komið fram við það eins og hvern annan sjúkling. Ég veit um fólk hefur verið komið með drep og orðið alvarlega veikt en fer samt ekki. Auðvitað er inn á milli gott fólk sem gerir góða hluti. Ég tek það alls ekki af því, en það er þetta með fordómana sem er svo sárt fyrir fólki, það er skortur á þekkingu. Mér finnst skrítið að þetta sé enn svona árið 2022.“
Hvað með aðstandendur?
„Ef einhver einstaklingur í fjölskyldunni verður fíkill þá er honum stundum sparkað út um dyrnar og látið eins og hann sé ekki til. Það er ekki leiðin. Ef einhver verður veikur þá er ekki komið svona fram við manneskjur. Maður sér þetta oft, það er eins og fólk sé bara dáið þegar það er það ekki. Fjölskyldan mín gerði það aldrei en ég hugsa til þess að ef ég hefði til dæmis fengið þessa skaðaminnkandi meðferð áður en mamma dó þá hefði ég getað sinnt henni betur og fengið meiri tíma með henni, í stað þess að vera alltaf að redda mér allan daginn,“ segir Hákon.
Fólk sem er að fá þessa meðferð, getur allt í einu verið í skóla, verið í vinnu og nær að halda húsnæði
Úrræði sem verður að bæta við
Hákon segir að hann fagni því að skaðaminnkandi meðferðin sem hann fær sé rædd opinberlega í fjölmiðlum en finnst sárt þegar fólk er að tala án þess að hafa nokkra þekkingu á málinu eða skilning á sögu fólksins sem um ræðir.
Hann telur nauðsynlegt að gera skaðaminnkandi meðferðina formlega og að það standi fólki með þungan vímuefnavanda til boða sem hafi reynt allt annað en án árangurs.
„Þetta á ekki að vera það fyrsta sem fólk reynir. Þetta á að vera allra seinasti kosturinn og það þurfa að vera skilyrði og viðmið, þetta ætti helst ekki að vera fyrir of ungt fólk. Ég er að verða fimmtugur og er búinn að vera í þessu í tíu ár. Allir sem fá þessa skaðaminnkandi meðferð hafa reynt allt sem er í boði. Það hefur ekki gengið upp og mér finnst miklu frekar að þetta eigi þá að vera í boði fyrir veikasta hópinn, og að ráðamenn geti ekki þvegið hendur sínar af þessu og látið eins og þessi vandi sé ekki til staðar.“
Hann segir breytinguna sem verður á fólki sem kemst í þessa skaðaminnkandi meðferð í raun ótrúlega.
„Fólk sem er að fá þessa meðferð, getur allt í einu verið í skóla, verið í vinnu og nær að halda húsnæði. Þetta gefur fólki kost á öllu þessu og að halda áfram með líf sitt. Það fær einnig tækifæri á að taka á sínum undirliggjandi vanda sem hefur þurft að sitja lengi á hakanum. Meðferðin hefur mikil jákvæð áhrif og hefur reynst þeim mjög vel sem eru á henni, ég hef séð það með mínum eigin augun.“
Hákon hefur gengið í gegnum ýmislegt um ævina. Hann hefur þurft að búa á götunni og á að baki sögu um afbrot og hefur í tvígang setið í fangelsi fyrir þau, fyrir um þremur áratugum. Brot hans má tengja beint við þann vímuefnavanda sem hann hefur verið að kljást við og þörfinni á því að einhvern veginn fjármagna hann.
„Þetta kostar og þess vegna vinnur fólk baki brotnu við að redda sér. Ég er núna í samfélagsþjónustu og hef verið í því í sirka tvo mánuði og ég gæti ekkert verið þar ef ég væri ekki í þessari skaðaminnkandi meðferð. Ég veit ekki hvernig ég fór að þessu fyrir meðferðina. Þetta var svo erfitt, en maður sá það ekki þá. Maður þurfti að brjóta af sér alla daga, en þegar ég byrjaði í þessari meðferð þá hætti ég alveg að brjóta af mér. Því ég þurfti þess ekki lengur og hafði þá enga ástæðu til að gera það.“
Hvernig er sú tilfinning?
„Ofboðslega góð. Ég hef loksins öðlast mannsæmandi líf.“