Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms í Rauðagerðismálinu og krefst sakfellingar yfir þeim þremur sem sýknuð voru af ákæru um manndráp og til refsiþyngingar hvað varðar Angjelin Mark Sterkaj, sem var einn sakfelldur í héraði í síðasta mánuði. Þetta staðfestir Sigríður Friðjónsdóttir við Fréttablaðið.

Angjelin var einn sakfelldur fyrir morðið á Armando Beqirai í héraði í síðasta mánuði og dæmdur í sextán ára fangelsi.

Angjelin játaði verknaðinn nokkru eftir morðið og hefur ávallt haldið því fram að hann hafi verið einn að verki.

Armando var albanskur að uppruna, 33 ára gamall. Hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauða­gerði þann 13. febrúar síðast­liðinn.

Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, sambýliskona Angjelin, Murat Selivrda og Shpetim Qerimi voru öll sýknuð, en ríkissaksóknari krefst þess fyrir Landsrétti að þau verði sakfelld fyrir manndráp.

Í ákæru Héraðssaksóknara fyrir héraðsdómi var byggt á því að morðið hefði verið skipulagt í sameiningu þeirra fjögurra sem ákærð voru. Samverknaður hefur í för með sér heimild til þyngri refsingar vegna aukins ásetningsstigs.

Því má ætla að ef aðrir verða sakfelldir auk Angjelins og samverknaðarþátturinn telst uppfylltur, séu komnar forsendur til að þyngja dóm yfir Angjelin sem hlaut hefðbundinn dóm í héraði fyrir manndráp, 16 ár.

Engin sönnun um samantekin ráð

Við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi í september, neituðu þau þrjú Claudia, Shpetim og Murat alfarið sök. Verjendur þeirra höfnuðu því að unnt væri að dæma þau fyrir morð á grundvelli samverknaðar þar sem játning Angjelin Sterkaj lægi fyrir og engin þeirra þriggja hafi komið með beinum hætti að skotárásinni.

Um samverknaðinn segir í dómi héraðsdóms að ekkert þeirra fjögurra sem ákærð voru hafi borið um að þau hafi rætt saman um manndrápið fyrir fram og þau hafi þannig öll, eða hvert og eitt þeirra, vitað eða mátt vita að ákærði Angjelin myndi svipta Armando lífi er hann fór til fundar við hann nærri miðnætti laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðinn. Angjelin hafi játað sök og kvaðst hafa verið einn að verki og meðákærðu hefðu ekki átt hlut að máli. Þau hin hafi öll þrjú neitað sök frá upphafi.

Murat ásamt verjanda sínum Geir Gestssyni. Murat hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og segist góður vinur fórnarlambsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Murat

Um ákæru á hendur Murat Selivrda sem ákæruvaldið taldi að gefið hafi Claudiu fyrirmæli um að fylgjast með bílum fórnarlandsins, segir í dóminum að bæði Claudia og Angjelin hafi í framburði sínum borið um að það hafi verið Angjelin en ekki Murat sem gaf henni fyrirmælin. Metur dómari framburð þeirra trúverðugan um þetta og því ósannað að Murat hafi viðhaft þá háttsemi sem í ákæru greini.

Þá segir enn fremur að enginn vitnisburður liggi fyrir um að Murat að því í félagi við meðákærðu að svipta Armando lífi eins og hann sé ákærður fyrir. „Það er mat dómsins að virtum öllum gögnum málsins að þau séu ekki til þess fallin að af þeim sé fært, gegn neitun [hans] og öðru því sem rakið hefur verið, að draga þá ályktun að [hann] hafi vitað eða mátt vita af fyrirhugaðri ferð meðákærða Angjelin í Rauðagerði þetta kvöld og að meðákærði Angjelin myndi þá svipta A lífi.“

Claudia og Anton Þórarinsson, sem framan af var grunaður um aðild að morðinu, féllust í faðma þegar dómur í héraði var kveðinn upp.

Claudia

Að mati héraðsdóms var ekki nokkur leið að sakfella Claudiu sem ákærð var fyrir að hafa tekið við fyrirmælum frá Murat um að fylgjast með bílferðum, þar sem sannað þyki að fyrirmælin hafi hún fengið frá Angjelin en ekki Murat. Engin vitni hafi borið um að hún hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greini. Þá bendi heldur ekkert til þess að hún hafi vitað eða mátt vita að Angjelin myndi svipta Armando lífi þegar hann fór til fundar við hann umrætt kvöld. Var Claudia af þessum ástæðum, sýknuð af morðákærunni.

Shpetim

Shpetim Qerimi, sem ók Angjelin bæði til og frá morðstaðnum var einnig sýknaður af morðákæru í héraði sem fyrr segir. Um forsendur sýknunnar segir í dóminum að engin vitnisburður eða önnur gögn liggi fyrir um að Shpetim hafi vitað eða mátt vita hvert erindi Angjelins er hann fór út úr bílnum í Rauðagerði, né heldur liggi neitt fyrir um að hann hafi vitað eða mátt vita að Angjelin hafi skotið Armando til bana eftir að hann kom aftur inn í bílinn og ekið var út úr bænum. Sjálfur bar Shpetim að hann hafi hvorki séð byssuna né Angjelin losa sig við hana í Kollafirði.

Fréttablaðið/Anton Brink

Þess er einnig getið í dómi héraðsdóms að þegar Angjelin sagði Shpetim að grunur hafi fallið á hann vegna morðsins, hafi Shpetim vísað honum umsvifalaust af heimili sínu. Þetta þykir dómara styrkja framburð Shpetim um að hann hafi ekki vitað af morðinu fyrr eða síðar.

Um framburð Shpetim almennt segir í dóminum að hann sé trúverðugur enda fái hann stoð í framburði Angjelin og ekkert sé framkomið sem bendi til þess að hann sé ekki réttur.

„Þá verða að mati dómsins ekki dregnar neinar ályktanir af öðrum gögnum málsins sem væru til þess fallin að hafna framburði ákærða Shpetim og telja hann sekan um manndráp í félagi við meðákærðu,“ segir að lokum um sýknu Shpetim.

Drógu upp nákvæma mynd af atburðum

Ákæruvaldið dró hins vegar upp nokkuð nákvæma mynd af atburðum kvöldsins sem morðið var framið.

Brugðið var upp nákvæmri tímalínu um klukkustundirnar fyrir og eftir morðið sem byggð var á farsímagögnum, upptökum úr eftirlitsmyndavélum og fleiri gögnum sem lögregla aflaði.