Daníel Gunnarsson, íslenskur maður, sem er grunaður um að hafa framið hrottalegt morð í Bandaríkjunum, hefur verið úrskurðaður hæfur til að svara til saka í Kern sýslu í Kaliforníu.
Fjallað var um mál Daníels í íslenskum fjölmiðlum í ágúst í fyrra en þá hafði dómari kveðið upp úrskurð þess efnis að Daníel væri ekki hæfur til að réttað yrði yfir honum og að hann skyldi gangast undir meðferð hjá geðlækni á viðeigandi stofnun þangað til hann yrði metinn hæfur.
Í bandaríska svæðismiðlinum Kget.net var vitnað í verjanda Daníels sem sagði ástand hans slæmt, hann væri í raun „ekki móttækilegur fyrir neinu.“
Orðinn hæfur til að svara til saka eftir meðferð hjá geðlækni
Nú hefur hins vegar verið boðað til fyrirtöku í máli Daníels síðar í þessum mánuði.
Fréttablaðið ræddi við saksóknarann málinu, Joseph A. Kinzel, varahéraðssaksóknara Kern-sýslu, sem segir nýjan úrskurð hafa gengið í málinu í mars síðastliðnum og Daníel metinn hæfur til að svara til saka.

Kinzel segir matið lúta að því hvort Daníel geti skilið sakirnar sem honum eru gefnar hendur og hvort hann sé fær um að taka þátt í málsvörn sinni.
Til þess að úrskurða um hæfni einstaklings í svona málum sé leitað til sérfræðilækna sem annist meðferð viðkomandi og geri dómsyfirvöldum viðvart þegar þeir telji ástand skjólstæðingsins nógu gott til að meðferð málsins geti haldið áfram. Þann 22. mars mat dómari gögn sérfræðingana svo að Daníel væri orðinn hæfur og því gætu málaferli hafist.
Fórnarlambið fyrrverandi bekkjarsystir Daníels
Daníel á íslenskan föður og tékkneska móður, en flutti ungur með móður sinni til Kaliforníu-fylkis, nánar tiltekið til borgarinnar Ridgecrest í Kern sýslu.
Daníel er kærður fyrir morð af yfirlögðu ráði og limlestingu á líki. Hann dvelur nú í Lerdo-fangelsinu, sem er gæsluvarðhaldsfangelsi í Kaliforníu. Þetta kemur fram í gögnum sem Fréttablaðið hefur undir höndum.
Morðið sem Daníel hefur verið kærður fyrir var í borginni Ridgecrest, sem er álíka fjölmenn og Hafnarfjörður, en íbúafjöldi er tæplega þrjátíu þúsund.
Daníel og fórnarlambið, Katie Pham, voru bekkjarsystkyn og voru rúmlega tvítug þegar morðið var framið í maí í fyrra. Daníel var handtekinn á vettvangi morðsins, í bílskúr við heimili stjúpföður síns. Í málskjölum kemur fram að Daníel hafi verið blóðugur á vettvangi þegar lögregla kom á vettvang og er hann sagður hafa sagt „ég drap hana“ við lögreglumenn sem komu á vettvang.

Áverkar á líkinu voru miklir, alvarlegir áverkar aftan á höfði og fjöldi stungusára um allan líkama hennar. Samkvæmt síðari lið kærunnar á hendur Daníel mun hann hafa reynt að búta líkið niður. Morðvopnið er talið vera ísnál að því er fram kemur í málsgögnum.
Svæðismiðlar hafa einnig greint frá því að stjúpfaðir Daníels hafi sagt lögreglu að Daníel og Katie Pham hafi átt í stuttu ástarsambandi en að Daníel hafi trúað honum fyrir því sama dag og morðið var framið að Pham hafi slitið sambandinu. Áðurnefndur svæðismiðillKget.net, hefur leitt líkur að því að Daníel hafi myrt Pham vegna þess að hún hafði ekki áhuga á að eiga í alvarlegu ástarsambandi við hann.
Handtekinn blóðugur á vettvangi en neitar sök
Mál Daníels verður tekið fyrir þann 22. júní, en í þeirri fyrirtöku þarf ákæruvaldið að leggja fram þau sönnunargögn sem aflað hefur verið í málinu. Í kjölfarið tekur dómari afstöðu til þess hvort þau séu nægilega sterk til að málinu verði haldið áfram eða hvort það verði látið niður falla.
Þann 21. mars, daginn fyrir hina formlegu fyrirtöku, fer fram undirbúningsþinghald, til að kanna möguleika á samkomulagi, það er hvort Daníel verði boðin vægari refsing gegn játningu í málinu. Náist ekki slíkt samkomulag verða sönnunargögn málsins borin fyrir dómara í hinni formlegu fyrirtöku. Telji dómari sönnunargögnin gegn Daníel fullnægjandi, má búast við því að réttarhöldin yfir Daníel fari fram um það bil sextíu dögum eftir fyrirtökuna, eða seinnipartinn í ágúst.
Aðspurður segir Kinzel að Daníel eigi rétt á því að málið verði flutt fyrir kviðdómi. Verði réttað í málinu séu allar líkur á að kviðdómur ákvarði um sekt eða sýknu Daníels í málinu.
Dauðarefsingar eru ekki heimilar í Kaliforníufylki en búast má við því að gerð verði krafa um lífstíðarfangelsi, verði Daníel fundinn sekur um morðið.
Kinzel segist ekki mega greina frá því hvort Daníel hafi játað verknaðinn fyrir lögreglu, enn hann staðfestir hins vegar við Fréttablaðið að Daníel hafi neitað sök fyrir dómi.