Þeir þrír menn sem taldir eru bera mesta á­byrgð á dauða hinnar norsku Maren Ueland og hinnar dönsku Lou­isa Vestera­ger Jesper­sen í Marokkó í fyrra voru í dag dæmdir til dauða. Dómur féll í Salé í Marokkó seinni partinn í dag. Fjórði maðurinn var dæmdur til lífs­tíðar­fangelsis.

Mennirnir þrír sem dæmdir voru til dauða eru þeir Abdes­sam­ed Ejjoud (25 ára), You­nes Ou­azi­yad (27 ára) og Rachid Afatti (33 ára). Greint er frá því í um­fjöllun norska miðilsins Aften­posten að þeir hafi allir tekið þátt í að skipu­leggja morðin og hafi tekið þátt í að myrða stúlkurnar.

Þar segir einnig að búist hafi verið við því að mennirnir yrðu dæmdir til dauða. Enginn hefur þó verið af­lífaður í Marokkó frá árinu 1993 og því er mjög lík­legt að þeir muni, í fram­kvæmd, vera lífs­tíðar­fangelsi.

Maren Ueland var 28 ára þegar hún lést og Lou­isa Vestera­ger Jesper­sen að­eins 24 ára. Stúlkurnar voru myrtar á grimmi­legan máta nærri Im­lil í Atlas-fjöllunum í desember á síðasta ári.

Alls voru 24 karl­menn á­kærðir í kjöl­far morðanna. Eins og fyrr segir hlutu þrír þeirra dauða­dóm og einn lífs­tíðar­fangelsi. Hinir 19 hlutu fimm til 30 ára fangelsis­dóm. Þeir voru sakaðir um að styðja við hryðju­verka­sam­tök. Þeir hafa neitað sök í málinu og sagt morðin „frum­stæð“.

Hinn spænski og sviss­neski Kevin Zoller Guervos sem á­kærður var fyrir hryðju­verka­þjálfun var dæmdur til 20 ára fangelsins fyrir hlut sinn í morðunum. Hann neitaði sök fyrir dómi.

Verður líklega áfrýjað

Fjöl­miðla­full­trúi norska utan­ríkis­ráðu­neytisins, Guri Sol­berg, sagði í tölvu­pósti til NTB að þau séu með­vituð um að dómur hafi fallið í málinu. Full­trúi frá norska sendi­ráðinu hefur verið við­staddur sem á­horf­andi í dóm­sal.

Fjöl­skyldur stúlknanna hafa krafið yfir­völd í Marokkó um skaða­bætur. Dóm­stóllinn komst ekki að þeirri niður­stöður að yfir­völd skyldu greiða þeim bætur en að mennirnir sem voru sak­felldir ættu að greiða hvorri fjöl­skyldu um 2 milljónir norskra króna í skaða­bætur.

Ekki er ljóst enn hvort að mennirnir muni á­frýja dómi en frestur til þess er sagður tíu dagar. Lög­maður Ueland fjöl­skyldunnar hefur þó sagt við fjöl­miðla að hann telji lík­legt að það verði gert. Málið yrði tekið fyrir í æðri dóm­stólum í lík­lega októ­ber eða nóvember á þessu ári. Fari málið fyrir hæsta­rétt tekur það lík­lega enn lengri tíma, eða allt að ár þar til enda­niður­staða fæst í málinu.

Frétt Aften­posten er að­gengi­leg hér.