Tetsuya Yamagami, sem drap japanska fyrrum forsætisráðherrann Shinzo Abe á föstudaginn, virðist hafa framið morðið vegna andúðar sinnar á söfnuði hinna svokölluðu „moonista,“ sem hann taldi Abe tengjast. Moonistar í Japan hafa staðfest að móðir Yamagami er meðlimur í söfnuðinum, sem hann segir að hafi keyrt hana í gjaldþrot fyrir um tuttugu árum. Hún hafi gefið söfnuðinum allt sitt fé og þannig skilið fjölskylduna eftir snauða.
Moonistar heita formlega Sameiningarkirkjan og eru kristinn söfnuður sem fylgir kenningum kóreska trúarleiðtogans Sun Myung Moon. Sameiningarkirkjan starfar á Íslandi undir nafninu Heimsfriðarsamtök Fjölskyldna og telur til sín átján manns hér á landi samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu.

Trúarkenning Moons gekk út á að Moon væri sjálfur nýr Messías sem væri ætlað að fullkomna það verk sem Jesú hefði mistekist fyrir 2000 árum. Moon hélt því fram að Kristur hefði birst honum í sýn árið 1936 og falið honum að ljúka hjálpræðisverkinu. Þrátt fyrir að boða þannig nokkuð umdeilda túlkun á kristinni trú náði Moon miklu fylgi og safnaði sér miklum auðæfum á ferli sínum.
Moon og söfnuður hans voru jafnframt virk í veraldlegu stjórnmálastarfi og Moon átti sjálfur vingott við valdamikla menn á borð við Richard Nixon Bandaríkjaforseta. Aðrir Bandaríkjaforsetar, þar á meðal Bush-feðgarnir og Donald Trump, hafa einnig ávarpað samkomur moonista í skiptum fyrir pólitískan og fjárhagslegan stuðning söfnuðarins.
Abe var ekki meðlimur í Sameiningarkirkjunni en líkt og margir valdsmenn hafði hann ávarpað söfnuðinn. Hann flutti myndbandsræðu sem sýnd var á samkomu moonista í september í fyrra þar sem hann hrósaði starfsemi þeirra við að stilla til friðar á Kóreuskaga. Móðurafi Abe, japanski forsætisráðherrann Nobusuke Kishi, var jafnframt kunnugur Sun Myung Moon og átti vingott við hann vegna sameiginlegra andkommúnískra stjórnmálaskoðana þeirra.
Samkvæmt umfjöllun fréttamiðilsins Kyodo News stóð Yamagami í þeirri trú að Kishi hefði á sínum tíma greitt veg Sameiningarkirkjunnar inn í Japan og tók út reiði sína á dóttursyni hans.