Manni sem verið hefur í haldi lögreglu í rúmar tvær vikur vegna morðsins sem framið var í Rauðagerði 13. febrúar, verður sleppt úr haldi síðdegis eða í kvöld. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Gerð hefur verið krafa um að hann sæti farbanni.

Um er að ræða manninn sem handtekinn var fyrstur allra vegna málsins, nóttina sem Armando Beqirai var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði.

Maðurinn er ekki búsettur hér á landi, hann er frá Litháen búsettur á Spáni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hann hér á landi meðal annars í því skyni að veita íslenskum karlmanni vernd, eftir að gögn um hinn síðarnefnda og samband hans við fíkniefnalögregluna fóru í almenna dreifingu í samfélaginu.

Sex eru enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þeirra á meðal eru Íslendingur og albanskur maður sem grunaður er um að hafa skotið Armando Beqirai fjölmörgum skotum fyrir utan heimili hans og banað honum. Tveir sæta farbanni vegna málsins og verður Litháinn sá þriðji.