Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur framkvæmt húsleitir á nærri tuttugu stöðum, á heimilum, í sumarhúsum og fleiri stöðum á Norðurlandi, Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar á morði í Rauðagerði.

Þar á meðal var leitað í húsgrunni nýbyggingar á Arnarnesi í Garðabæ. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Gera verður ráð fyrir að enn sé morðvopnsins leitað en fimm umræddra húsleita voru framkvæmdar í dag, að því er fram kemur í frétt RÚV um málið. Talið er að maðurinn hafi verið myrtur með skammbyssu með hljóðdeyfi. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, vildi ekki staðfesta hvort morðvopnið væru fundið.

Málið er umfangsmikið að sögn lögreglu og eru yfirheyrslur hafnar yfir þeim sem sitja í gæsluvarðhaldi. Tíu hafa verið handteknir vegna rannsóknarinnar, átta karlar og tvær konur. Annarri þeirra var sleppt í gær en hin er enn í haldi ásamt körlunum átta. Aðeins einn hinna handteknu er Íslendingur; karlmaður á fertugsaldri.

Maðurinn sem var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði var albanskur maður að nafni Armando Beqirai sem hafði búið hér á landi í mörg ár. Hann var fæddur árið 1988 og lætur eftir sig eiginkonu og eitt barn.