Angjelin Mark Sterkaj var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai, Í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt í þessu.

Angjelin játaði verknaðinn nokkru eftir morðið og hefur ávallt haldið því fram að hann hafi verið einn að verki. Armando var albanskur að uppruna, 33 ára gamall. Hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauða­gerði þann 13. febrúar síðast­liðinn.

Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, sambýliskona Angjelin, Murat Selivrda og Shpetim Qerimi voru öll sýknuð.

Angjelin er dæmdur til að greiða Þórönnu Helgu Gunnarsdóttur, ekkju Armando, fjórar milljónir í miskabætur, 27 milljónir vegna framfærslumissis og rúmar 500 þúsund krónur vegna útfararkostnaðar. Sonur Þórönnu og Armando fær sjö milljónir vegna missis framfærslu og þrjár milljónir í miskabætur. Dóttir Þórönnu og Armando, sem fæddist eftir að Armando var myrtur, fær þrjár milljónir í miskabætur og tæpar átta milljónir vegna framfærslumissis. Foreldrar Armando fá sex milljónir í miskabætur.

Fréttin var uppfærð þegar dómurinn birtist og Fréttablaðið rifjar hér upp helstu atvik þessa umfangsmikla sakamáls.

Angjelin var dæmdur í 16 ára fangelsi. Hin þrjú voru sýknuð.
Fréttablaðið/Samsett

Kvaðst alltaf hafa verið einn að verki

„Mér þykir mjög miður að fjöldi fólks, sem á engan þátt í því sem ég gerði, hafi verið bendlað við málið og jafn­vel þurft að sæta gæslu­varð­haldi, þeirra á meðal Ís­lendingur sem hefur bæði verið opin­ber­lega nafn­greindur og myndir verið birtar af honum með fjöl­miðla­um­fjöllun um málið.“

Þetta sagði Angjelin Sterkaj í sam­tali við Frétta­blaðið rúmum tveimur vikum eftir morðið. Hann var þá í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni.

Málsvörn Angjelin byggði á neyðarvörn og að hann og sonur hans hefðu orðið fyrir alvarlegum hótunum af hálfu Armando sem leiða ætti til refsilækkunar eða refsibrottfalls. Um þessa málsvörn segir í dómi héraðsdóms: „Litlar upplýsingar eru um deilur milli ákærða Angjelins og [Armando] þótt gögn beri með sér að eitthvert ósætti kunni að hafa verið á milli þeirra.“ Þá segir í dóminum að framburður Angjelins um miklar deilur og hótanir í sinn garð og um meinta 50 milljóna sekt, eins og rakið var, og ákærði hafi blandast inn í það, er að mati dómsins ótrúverðugur og ekki á rökum reistur.

Um ásetning Angjelins telur dómarinn að hann hafi vaknað í síðasta lagi þegar hann hóf að skjóta á Armando. Hvorki gögn né vitnisburðir bendi til þess að Armando hafi átt eða haft haglabyssu til umráða en jafnvel þótt framburður Angjelins um að Armando hafi gert sig líklegan til að ráðast á sig, er það mat dómsins að langur vegur sé frá því að virða þá háttsemi að skjóta Armando sem neyðarvörn.

Ekkert sé fram komið í málinu sem leiða ætti til annars en að virða háttsemi Angjelins sem beinan ásetning um að svipta Armando lífi. Hann á sér engar málsbætur að mati dómsins og er refsing hans ákveðin sextán ára fangelsi.

Framburður Angjelins um deilur og hótanir voru að mati dómsins ótrúverðugur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Samanteknum ráðum lýst í ákæru

Í ákæru er hins vegar byggt á því að morðið á Armando Beqirai hafi verið skipulagt og framið með samverknaði alla fjögurra. Claudia hafi fengið fyrirmæli um að fylgjast með bílum Armandos sem lagt hafði verið við Rauðarárstíg. Murat hafi haft það hlutverk að sýna henni bílana. Samkvæmt ákæru hafði Claudia það hlutverk að fylgjast með þeim og gera Shpetim viðvart þegar hreyfing yrði á annarri hvorri þeirra.

Það hafi hún gert og sent honum skilaboð gegnum Messinger þegar Armando ók á öðrum bílnum frá Rauðarárstíg. Í kjölfar skilaboðana hafi Shpetim og Angjelin ekið að Rauðagerði.

Svo segir í ákærunni að þegar Armando hafi nálgast heimili sitt við Rauðagerði 28 hafi þeir ekið á eftir honum. Shpetim hafi stöðvað til að hleypa Angjelin út úr bílnum við hús númer 28 en svo ekið aðeins lengra, snúið bílnum við og beðið Angjelins. Sjálfur hafi Angjelin falið sig við bílskúrinn eftir að Armando ók bíl sínum inn í hann og hafið skotárás þegar hann gekk út úr bílskúrnum og ætlaði inn í húsið.

Fyrir liggur að Shpetim og Angjelin óku í humátt eftir Armando inn í Rauðagerði kvöldið sem hann var myrtur.
Fréttablaðið/Valli

Að skotárásinni lokinni hafi Armando gefið Shpetim merki um að pikka sig upp.

„Þeir óku svo út úr bænum og í Varmahlíð í Skagafirði, með viðkomu í Kollafirði þar sem ákærði losaði sig við skammbyssuna með því að henda henni í sjóinn,“ segir í ákærunni en um var að ræða 22 kalíbera skammbyssu af gerðinni Sig Sauer.

Armando var úrskurðaður látinn við komu á bráðadeild. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.

Sagði aðdragandann tengdan Antoni og 50 milljónum

Við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi í síðasta mánuði sagði Angjelin málið hafa byrjað þegar Armando kom til hans vegna ágreinings við Anton Kristinn Þórarinsson um 50 milljónir króna skuld. Armando og aðrir hafi beðið Angjelin um að taka börnin hans „Tona“ af honum en Angjelin hafi neitað og þá hafi Armando hótað að senda hann og vini hans úr landi og aftur til Albaníu. Einnig hafi hann hótað að skera hann og son hans á háls að sögn Angjelin.

„Eftir það var meiri pressa á mér og hann var að hóta mér lífláti og syni mínum líka. Þá ákvað ég að kaupa byssu,“ sagði Angjelin í skýrslu sinni fyrir dómi.

Hann var að hóta mér lífláti og syni mínum líka. Þá ákvað ég að kaupa byssu.

Angjelin sagðist hafa verið hræddur um líf sitt og vildi hitta Armando og reyna að ræða við hann til að sættast. Nokkrum dögum fyrir fundinn hittust hluti hinna ákærðu í Borgarnesi. Angjelin ítrekaði hins vegar að hann hafi verið einn að verki. Claudia hafi látið hann vita þegar Armando lagði af stað úr vinnunni og Sphetim hafi beðið í bílnum meðan Angjelin fór að hitta Armando.

Angjelin sagðist hafa skotið Armando í sjálfsvörn. Hann hafnaði allri aðild annarra og sagðist hafa verið einn að verki.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Þegar ég fór í Rauðagerði og bað Sphetim um að fara bílstjóramegin. Ég bað hann um að keyra svolítið þá ég vildi hitta Armando bara til að ræða við hann, vildi ekki að hann væri með öðrum,“ lýsti Angjelin sem sagðist hafa séð Armando ná í haglabyssu úr skottinu á bílnum sínum og sett hana upp í hillu í bílskúrnum.

„Þá byrja ég að setja upp hljóðdeyfi og hann sér það,“ sagði Angjelin og hélt því fram að Armando hafi hótað sér.

„Þegar hann kom út úr bílskúrnum ætlaði ég að spjalla við hann. Armando sagðist ætla að drepa mig og börn mín og ráðast á mig. Þarna tók ég byssuna upp um leið og hann ætlaði að ráðast á mig. Þá tók ég byssuna upp og byrjaði að skjóta.“

„Hann spurði hvort ég hefði talað við hann og ég sagði við hann að hann mun ekki hóta neinum eða drepa lengur.“ Segist Angjelin ekki hafa sagt Sphetim að hann hefði drepið manninn.

Einn verjendana ræddi við Kolbrúnu Benediktsdóttur saksóknara fyrir aðalmeðferð málsins í síðasta mánuði.

Ekkert hinna þriggja hafi komið að skotárásinni

Við aðalmeðferð málsins í september, neituðu þau þrjú Claudia, Shpetim og Murat alfarið sök. Verjendur þeirra höfnuðu því að unnt væri að dæma þau fyrir morð á grundvelli samverknaðar þar sem játning Angjelin Sterkaj lægi fyrir og engin þeirra þriggja hafi komið með beinum hætti að skotárásinni.

Um samverknaðinn segir í dóminum að ekkert þeirra fjögurra sem ákærð voru hafi borið um að þau hafi rætt saman um manndrápið fyrir fram og þau hafi þannig öll, eða hvert og eitt þeirra, vitað eða mátt vita að ákærði Angjelin myndi svipta Armando lífi er hann fór til fundar við hann nærri miðnætti laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðinn. Angjelin hafi játað sök og kvaðst hafa verið einn að verki og meðákærðu hefðu ekki átt hlut að máli. Þau hin hafi öll þrjú neitað sök frá upphafi.

Murat Selivrda

Um ákæru á hendur Murat Selivrda sem ákæruvaldið taldi að gefið hafi Claudiu fyrirmæli um að fylgjast með bílum fórnarlandsins, segir í dóminum að bæði Claudia og Angjelin hafi í framburði sínum borið um að það hafi verið Angjelin en ekki Murat sem gaf henni fyrirmælin. Metur dómari framburð þeirra trúverðugan um þetta og því ósannað að Murat hafi viðhaft þá háttsemi sem í ákæru greini.

Þá segir enn fremur að enginn vitnisburður liggi fyrir um að Murat að því í félagi við meðákærðu að svipta Armando lífi eins og hann sé ákærður fyrir. „Það er mat dómsins að virtum öllum gögnum málsins að þau séu ekki til þess fallin að af þeim sé fært, gegn neitun [hans] og öðru því sem rakið hefur verið, að draga þá ályktun að [hann] hafi vitað eða mátt vita af fyrirhugaðri ferð meðákærða Angjelin í Rauðagerði þetta kvöld og að meðákærði Angjelin myndi þá svipta A lífi.“

Dómari taldi framburð Murats trúverðugan.
Fréttablaðið/Anton Brink

Claudia

Að mati dómsins er ekki nokkur leið að sakfella Claudiu sem ákærð var fyrir að hafa tekið við fyrirmælum frá Murat um að fylgjast með bílferðum, þar sem sannað þyki að fyrirmælin hafi hún fengið frá Angjelin en ekki Murat. Engin vitni hafi borið um að hún hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greini. Þá bendi heldur ekkert til þess að hún hafi vitað eða mátt vita að Angjelin myndi svipta Armando lífi þegar hann fór til fundar við hann umrætt kvöld. Var Claudia af þessum ástæðum, sýknuð af morðákærunni.

Claudia var sýknuð en dómari taldi hana ekki getað vitað að Angjelin hygðist taka Armando af lífi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Shpetim Qerimi

Shpetim Qerimi, sem ók Angjelin bæði til og frá morðstaðnum var einnig sýknaður af morðákæru sem fyrr segir. Um forsendur sýknunnar segir í dóminum að engin vitnisburður eða önnur gögn liggi fyrir um að Shpetim hafi vitað eða mátt vita hvert erindi Angjelins er hann fór út úr bílnum í Rauðagerði, né heldur liggi neitt fyrir um að hann hafi vitað eða mátt vita að Angjelin hafi skotið Armando til bana eftir að hann kom aftur inn í bílinn og ekið var út úr bænum. Sjálfur bar Shpetim að hann hafi hvorki séð byssuna né Angjelin losa sig við hana í Kollafirði.

Þess er einnig getið að þegar Angjelin sagði Shpetim að grunur hafi fallið á hann vegna morðsins, hafi Shpetim vísað honum umsvifalaust af heimili sínu. Þetta þykir dómara styrkja framburð Shpetim um að hann hafi ekki vitað af morðinu fyrr eða síðar.

Um framburð Shpetim almennt segir í dóminum að hann sé trúverðugur enda fái hann stoð í framburði Angjelin og ekkert sé framkomið sem bendi til þess að hann sé ekki réttur.

„Þá verða að mati dómsins ekki dregnar neinar ályktanir af öðrum gögnum málsins sem væru til þess fallin að hafna framburði ákærða Shpetim og telja hann sekan um manndráp í félagi við meðákærðu,“ segir að lokum um sýknu Shpetim.

Shpetim vísaði Angjelin af heimili sínu þegar hann áttaði sig á því að Angjelin hafi myrt Armando.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ákæruvaldið dró hins vegar upp nokkuð nákvæma mynd af atburðum kvöldsins sem morðið var framið.

Brugðið var upp nákvæmri tímalínu um klukkustundirnar fyrir og eftir morðið sem byggð var á farsímagögnum, upptökum úr eftirlitsmyndavélum og fleiri gögnum sem lögregla aflaði.

Murat um fórnarlambið: „Ég treysti honum fyrir öllu“

Claudia og Murat kváðust hvorugt hafa vitað af skotárásinni fyrirfram. Murat sagðist hafa verið góður vinur fórnarlambsins.

„Armando er ein af fyrstu manneskjum sem ég kynntist. Við vorum að vinna í sömu byggingu þegar hann var að vinna á Palóma. Þarna vorum við að kynnast betur og við vorum mjög góðir vinir. Ég treysti honum fyrir öllu og trúi því ekki enn að hann sé ekki lifandi. Þetta er mjög þungt mál því hann er vinur minn og nú er ég líka ákærður í þessu máli. Það er mjög erfitt fyrir mig,“ sagði Murat.

Þetta er mjög þungt mál því hann er vinur minn og nú er ég líka ákærður í þessu máli. Það er mjög erfitt fyrir mig.

Segist hann þekkja vel Þórönnu Helgu Guðmundsdóttur, ekkju Armando. Hún hafi komið oft í heimsókn og það hafi verið gott samband þeirra á milli.

Segist hann hafa kynnst Angjelin í byggingarvinnu en hann hafi ekki verið náinn honum eða fjölskyldu hans. Aðspurður um aðdragandann að morðinu sagði Murat: „Ég fékk símtal frá Angjelin um að stjórarnir væru að hringja og hóta honum að þeir vildu hausinn hans en ég hugsaði ekki meira um það. Hélt að hann væri bara fullur eða á eiturlyfjum.“

Murat ásamt verjanda sínum Geir Gestssyni. Murat hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og segist góður vinur fórnarlambsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðspurður um kvöldið sem Armando var myrtur sagðist Murat ekki muna hvort hann hefði hitt Angjelin. Aðspurður viðurkenndi hann þó að hafa mögulega hitt Angjelin á einhverjum tímapunkti en kannski ekki rætt við hann. Hann segist hafa skutlað Shpetim heim til Angjelin og að hafa farið í bíltúr með Claudiu til þess að kaupa fíkniefni af manni sem kallaður var Donald. Segist hann hafa hitt Shpetim í Borgargerði til að ræða framkvæmdir á baðherbergi. Borgargerði er gatan sem liggur frá Rauðagerði.

Claudia og Angjelin héldu því hins vegar bæði fram að Murat hafi sýnt þeim hver ætti hvítan Ford bíl fyrir utan heimili Armando en Murat sagðist ekkert kannast við það.

Murat var stöðvaður af lögreglu þennan dag og samkvæmt lögregluskýrslu sagðist hann vera á leiðinni heim til Angjelin. Murat ítrekaði að hann hafi einungis verið á leiðinni til Angjelin til að sækja Shpetim.

Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo með verjanda sínum Sverri Halldórssyni.

Gerir það sem Angjelin segir henni að gera

Claudia bar í upphafi sinnar skýrslu að hún hafi vitað af ágreiningi milli fórnarlambsins Armando og „Tona“ sem heitir fullu nafni Anton Kristinn Þórarinsson vegna peningaskuldar. Umræddan dag hafi hún verið beðin að fylgjast með ákveðnum bíl fyrir utan Downtown apartments við Rauðarárstíg og hafi átt að láta Angjelin vita þegar bíllinn væri farinn. Átti hún að senda leyniskilaboðin „Hæ sexý“ til Angjelin sem merki um að Armando væri á leiðinni heim.

Þegar saksóknari spurði hana hvort hún vissi hver ætti bílinn svaraði hún: „Hvarflaði ekki að mér að spyrja. Ég geri yfirleitt það sem mér er sagt að gera. Ef hann segir mér að gera eitthvað þá geri ég það.“

Funduðu í Borgarnesi fyrir morðið

Shpetim Qerimi, bílstjórinn sem ók Angjelin að heimili Armando var fullur og mundi lítið af atburðum, að því er hann sjálfur sagði við aðalmeðferð málsins.

Aðspurður um orð Angjelins: „Hann mun ekki hóta neinum eða drepa lengur.“ , sagðist Shpetim hafa verið það fullur að hann hafi ekki skilið hann: „Ég var ekkert að hlusta á hvað hann væri að segja. Ég vissi ekkert hvað hann væri að tala um.“

Shpetim sagði Angjelin hafa beðið sig og Claudiu að hitta sig í Borgarnesi föstudagskvöldið 12. febrúar til að ræða eitthvert mál. Claudia hafi keyrt og Shpetim drukkið bjór á leiðinni. Þegar komið var til Borgarness bað Angjelin Shpetim um að láta Claudiu fá símann sinn áður en þeir fóru afsíðis til að tala saman.

„Við fórum út og hann spurði mig um ráð. Angjelin sagði að maður að nafni Goran væri að hóta sér og barni sínu lífláti. Hvað heldur þú að sé best að gera, spurði hann mig. Ég sagði við Angjelin að hringja í lögregluna eða kæra. Mín ráð voru að sættast bara við þá og ekki vera með neitt vesen. Best að sættast og ekki hafa það lengra,“ lýsti Shpetim þegar hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Shpetim Qerimi kvaðst lítið muna frá kvöldinu örlagaríka.
Fréttablaðið/Anton Brink

Shpetim sagði að daginn fyrir morðið hafi hann verið að drekka bjór. Hann og Murat lýstu því báðir í skýrslutökum sínum að þeir hafi hist þennan dag til að ræða baðherbergisframkvæmdir og þau þrjú, Murat, Claudia og Shpetim, hafi svo farið út að keyra til þess að kaupa fíkniefni hjá manni sem kallaður var Donald eða Dennis.

Hann varð svo viðskila við Murat og Claudiu og hafi þá Angjelin beðið hann um að koma með sér í bíltúr, sagðist ætla í Costco. þangað fóru þeir þó aldrei. Heldur ók Angjelin sem leið lá að Rauðagerði.

Neitaði að fara yfir á rauðu ljósi

„Við förum þarna að staðnum þar sem hann segir mér að skipta um sæti,“ lýsti Shpetim í vitnisburði sínum og segir Angjelin hafa farið frá í 6-10 mínútur. „Þegar ég var að borða sá ég Angjelin veifa mér. Ég keyrði beint til hans þar sem hann stóð við beygju. Ég náði í hann og hann sagði mér bara að keyra.“

Aðspurður sagðist Shpetim ekki hafa vitað að Angjelin ætlaði að ræða við Armando heldur stóð hann í þeirri meiningu að hann væri að selja fíkniefni. Hann hafi ekki séð byssuna þar sem Angjelin var í stórri úlpu. Þeir hafi lent strax á rauðu ljósi og Angjelin beðið hann um að keyra yfir en Shpetim sagt nei, þeir væru á rauðu ljósi. Beið hann eftir grænu ljósi í rólegheitunum og keyrði svo áfram.

Villigötur í upphafi rannsóknar

Óhætt er að fullyrða að Rauðagerðismálið hafi skekið þjóðina, en Armando var myrtur skömmu eftir að viðkvæm málefni fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rötuðu í fjölmiðla eftir leka á gögnum úr spillingarrannsókn. Sá kvittur komst stax á kreik að tengsl væru milli morðsins og upplýsingalekans sem höfðu meðal annars að geyma upplýsingar meintan uppljóstrara úr röðum undirheimamanna og grun sumra lög­reglu­manna um mútuþægni annarra lögreglumanna frá nafngreindum undirheimamanni.

Meðal gagnanna skýrsla sem tekin er af meintum uppljóstrara auk upplýsinga um sakamál sem lögreglan upplýsti með hans aðstoð.

Eftir að gögnunum var lekið taldi undirheimamaðurinn sér illa vært en kollegum hans í undirheiminum er eðlilega illa við þá sem veita lögreglu upplýsingar. Fékk hann í kjölfarið hóp útlendra manna í kring um sig, sér til verndar.

Frægur undirheimamaður hverfur

Á meðal varðmanna íslenska undirheimamannsins var litháískur maður, búsettur á Spáni.

Lithái þessi var handtekinn í íbúð undirheimamannsins strax sömu nótt og morðið var framið. Sjálfur var undirheimamaðurinn horfinn og hóf lögregla strax ákafa leit að honum vegna gruns um að hann hafi fyrirskipað morðið. Hann var svo handtekinn á þriðja degi ásamt tveimur öðrum einstaklingum.

Svo fór á endanum að hvorki Anton Þórarinsson né félagi hans frá Litháen voru ákærðir fyrir morðið. En lögregla hafði framkvæmt fjölda húsleita og annarra rannsóknaraðgerða vegna gruns um aðild þeirra að málinu.

Fjórtán sakborningar þegar mest lét

Rannsókn lögreglu var gríðarlega umfangsmikil en þegar mest var höfðu fjórtán einstaklingar réttarstöðu sakbornings í málinu, um tíma voru níu í gæsluvarðhaldi á sama tíma. Farið var í á annan tug húsleita víða um land, meðal annars var leitað í húsgrunni á Arnarnesi. Mikil orka fór í að leita að morðvopninu sem fannst ekki fyrr en rúmum mánuði eftir að morðið var framið. Það fannst í sjó rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Vitni og sak­borningar í málinu voru af allavega sjö þjóð­ernum; Albaníu, Portúgal, Litháen, Rúss­landi, Rúmeníu, Serbíu og Ís­landi. Sak­borningarnir tala ýmist rúmensku, portúgölsku eða albönsku en útvega þurfti fjölda túlka fyrir aðalmeðferð málsins.