Aðal­með­ferð í máli Gunnars Jóhanns Gunnars­sonar, sem grunaður er um að hafa myrt hálf­bróðir sinn í Mehamn í lok apríl í Noregi, hefur verið frestað þangað til næsta árs. Þetta kemur fram í frétt RUV um málið. Verjandi Gunnars, Bjørn André Gul­stad, sagði í sam­tali við RUV að réttar­höld yrðu hafin í mars.

Upp­haf­lega var á­ætlað að aðal­með­ferð færi fram 2. desember en að sögn Tor­stein Lindqu­i­ster, héraðs­sak­­sókn­ara í Troms og Finn­mörku, var aðal­með­ferð sett of snemma á dag­skrá. Þá var rann­sókn málsins ekki lokið þegar dag­setning réttar­haldanna var á­kveðin. Allir máls­aðilar féllust því á sein­kunina.

Játaði glæpinn

Gunnar Jóhann er grunaður um að hafa skotið bróður sinn, Gísla Þór Þórarins­­son, með hagla­byssu, að morgni 27. apríls á þessu ári. Í kjöl­farið birti Gunnar Jóhann færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hann virtist játa verknaðinn og baðst af­sökunar á því að hafa framið „sví­virði­legan glæp“, auk þess sem hann er sagður hafa játað morðið við hand­töku.

Á seinni stigum málsins virðist fram­burður Gunnars þó hafa breyst og telur hann nú að um slys hafi verið að ræða. Þá á Gunnar ekki að hafa gripið sjálfur í gikkinn heldur einungis ógnað bróður sínum með byssunni. Við það hafi bróðirinn gripið til varna sem leiddi til þess að skot hafi hlaupið úr byssunni. Allan á­setning vanti því í málinu að mati verjanda.