Líklegt er að aðalmeðferð í máli Gunnars Jóhanns Gunnars­sonar, sem grunaður er um að hafa myrt hálfbróðir sinn í Mehamn í Noregi, hefjist ekki fyrr en í febrúar eða jafnvel á vormánuðum næsta árs.

Áætlað hafði verið að hefja aðalmeðferð þann 2. desember en í samtali við mbl.is segir Torstein Lindquister, héraðssak­sókn­ari í Troms og Finnmörku, að aðalmeðferð hafi verið sett of snemma á dagskrá.

Rannsókn hafi ekki verið lokið þegar dagsetning var sett í héraðsdómi, auk þess sem ákæra sé ekki tilbúin hjá ríkissaksóknara og ákærði þurfi lengri tíma til að undirbúa sína vörn í málinu.

Gunnar Jóhann er grunaður um að hafa skotið bróður sinn, Gísla Þór Þórarins­son, með hagla­byssu, að morgni 27. apríls á þessu ári. Í kjölfarið birti Gunnar Jóhann færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann virtist játa verknaðinn og baðst afsökunar á því að hafa framið „svívirðilegan glæp“, auk þess sem hann er sagður hafa játað morðið við hand­töku. Á seinni stigum sagðist hann telja að um slys hafi verið að ræða.