Gunnar Jóhann Gunnars­son, sem grunaður er um að hafa myrt hálf­bróður í Mehamn í Noregi síðast­liðinn apríl, hefur nú verið á­kærður fyrir mann­dráp af á­setningi en þetta kemur fram í frétt mbl.is um málið. Gunnar skaut Gísla Þór Þórarins­son á heimili hans með hagla­byssu og blæddi Gísla út í kjöl­farið.

Líkt og áður hefur verið greint frá átti atvikið sér stað að­fara­nótt laugar­dagsins 27. apríl 2019 en lög­reglunni í Finn­mörk hafði þá borist til­kynning um að skoti hafði verið hleypt af í heima­húsi. Á vett­vangi fannst Gísli , hálf­bróðir Gunnars, al­var­lega særður og lést hann skömmu síðar. Gunnar hafði verið í nálgunar­banni gagn­vart Gísla og hafði áður haft í hótunum við hann.

Ákæran kom á óvart

Héraðs­sak­sóknarinn í Troms og Finn­mörk gáfu út á­kæruna í gær en hún er alls í sex liðum. Auk þess sem Gunnar er á­kærður fyrir mann­dráp þá er hann einnig á­kærður fyrir hótanir, hús­brot á heimili Gísla, brot á nálgunar­banni, að hafa stolið bíl hálf­bróður síns og að hafa ekið þeim bíl undir á­hrifum.


Mbl.is hefur eftir verjanda Gunnars, Bjørn Gul­stad, að hann hafi ekki búist við á­kæru um mann­dráp af á­setningi þar sem Gunnar hafi skotið hálf­bróður sinn í lærið í ó­gáti eftir átök. Að sögn verjandans var um mann­dráp af gá­leysi að ræða, líkt og Gunnar hefur ætíð haldið fram, og segir hann á­kæruna vera „al­var­lega yfir­sjón“ af hálfu á­kæru­valdsins.


Réttar­höldin hefjast mánu­daginn 23. mars næst­komandi við Héraðs­dóm Vadsø. Málið var sent til saksóknaraembættisins í Troms og Finnmörk í nóvember á síðasta ári en nokkrar tafir voru á rannsókn málsins. Upprunalega var búist við að aðalmeðferð færi fram í byrjun desember en fallist var á seinkun þar sem rannsókn var ekki lokið.