Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelin Sterkaj, fer fram á vægustu refsingu fyrir morðið á Armando Beqirai og segir að skotárásin hafi verið örþrifaráð einstaklings sem var kominn upp við vegg.

Vegna þess að játning liggur fyrir í málinu ber að sakfella Angjelin en verjandi hans biður dóminn um að líta til aðdragandans og hafa í huga að hann hafi haft ástæðu til óttast um líf sitt. Hann segir saksóknara og lögreglu hafa horft fram hjá mikilvægum atriðum.

Angjelin er ákærður fyrir að hafa skotið Armando til bana fyrir utan heimili hans í febrúar en í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku bar hann fyrir sig sjálfsvörn og sagði Armando hafa hótað sér og syni sínum lífláti.

Sagði Angjelin að honum hafi verið hótað af Armando og vinum hans fyrr á árinu eftir að hann neitaði að handrukka Anton Kristin Þórarinssyni, eða Tona eins og hann er kallaður. Um hafi verið að ræða 50 milljóna króna sekt.

„Þeir vildu losna við Angjelin til að eiga auðveldara með að ná til Antons.“

„Hann sér ekki annan kost en að skjóta brotaþola,“ sagði Oddgeir í málflutningi sínum í dómsalnum í dag. Kolbrún Benediktsdóttir sækjandi sagði í málflutningi sínum í morgun að ef Angjelin taldi sig vera í lífshættu hefði hann getað leitað til lögreglu.

„Það er spurt af hverju hann hringdi ekki bara í lögreglu. Menn í undirheimunum eru með tengsl við lögreglu,“ sagði Oddgeir. Vísaði hann sérstaklega í vitnisburð Péturs Axels sem var dæmdur fyrir spillingu í tengslum við gagnaleka úr lögreglunni.

„Það verður að sýna því skilning að ákærði hafi ekki talið það raunhæfan kost að leita til lögreglu.“

Anton Kristinn til hægri þegar hann mætti í dómsalinn í skýrslutöku í síðustu viku.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Vildu losna við Angjelin til að ná til Antons

Oddgeir gerði al­var­lega at­huga­semd við rannsókn lögreglu og sagði athugunarvert að ákæruvaldið hafi ekki séð ástæðu til greina frá sér að brotaþolinn, Armando, væri tengdur skipulagðri glæpastarfsemi. Málið tengdist meðal annars spillingu innan lögreglunnar.

„Fyrir einhverju síðan var spilling innan lögreglunnar til rannsóknar eftir að gögnum var lekið um samskipti lögreglu og einstaklinga í undirheimunum. Þá voru haldnir fundir meðal undirheimamanna og niðurstaðan var að brotaþoli og félagar hans settu sekt svokallaða á Anton Kristinn,“ sagði Oddgeir. Anton hafi verið hræddur um líf sitt og ráðið þrjá erlenda menn til að verja sig og fjölskyldu sína út af þessum skjalaleka.

Segir Oddgeir að Armando og félagar hans hafi reynt að knýja Anton til að borga þessa sekt og hótað að skera hann og barnið hans á háls. Angjelin hafi staðið á milli þeirra og Antons og hafi því verið útskúfaður frá Albönum.

„Ljóst var að Albanirnir og Serbarnir sem stóðu að Topguard myndu ekki hika. Þeir vildu losna við Angjelin til að eiga auðveldara með að ná til Antons.“

Þá hafi Angjelin útvegað sér byssu til þess að fæla fólk frá. Armando hafi hótað að ganga frá Angjelin og Armando hafi þá hótað til baka að hann myndi fylla maga hans af kúlum. Þá hafi Angjelin fengið myndband frá Armando og serbneskum vini hans af heimili barnsmóður Angjelin með þeirri hótun að þau yrðu myrt.

Einnig bendir Oddgeir á hópsamtal á samskiptaforritinu messenger mili Armando og félaga hans Goran, Rilind og Vladimir, um að kveikja í bíl Angjelin og ráðast á hann.

Saksóknarar og réttargæslumaður.
Fréttablaðið/Anton Brink

Oddgeir segir fund Angjelin við Shpetim og Claudiu í Borgarnesi á föstudeginum, daginn fyrir morðið, hafi snúist um að leysa deilur og ekki hafi verið ásetningur um manndráp. Þó þeir hafi látið Claudiu geyma símana segi það ekkert til um fyrirætlanir um manndráps. „Kannski voru þeir bara að tala um fíkniefni, hver veit?“

Kolbrún Benediktsdóttir sagði í morgun að Angjelin hafi gert miklar ráðstafanir til að hitta Armando einan þrátt fyrir að búið var að skipuleggja sáttafund á mánudeginum. Oddgeir segir að það hefði verið lífshættulegt fyrir Angjelin að mæta á mánudeginum, sérstaklega þar sem ráðist var á Armando í janúar.

Svona lýsir Oddgeir örlagaríka deginum sem Angjelin skaut Armando:

„Hann fór á staðinn og var með byssutöskuna á sér eins og oftast. Það hefði verið sérstakt ef hann hafði ekki verið með hana á sér. Þegar ákærði hitti brotaþola og ætlaði að viðra sættir eða kanna hvort það væri mögulegt fékk ákærði aðeins fleiri líflátshótanir frá brotaþola og þá var alveg ljóst að ákærði var kominn upp við vegg.“

Angjelin hafi ekki séð annan kost en að skjóta Armando, það hafi verið örþrifaráð að skjóta Armando þegar þegar hann stefndi að sér með hótunum. Kolbrún sagði í morgun að samkvæmt vitnum sem bjuggu á neðri hæð hússins, hafi ekki komið til átaka á milli þeirra. Það hafi einungis heyrst hvellur þegar Armando féll. Oddgeir bendir á að það hafi verið óveður á þessum tíma og engin leið til að vita hvort orðahnippingar þeirra hefðu heyrst inn í húsið.

Á 57 sekúndum skaut Angjelin Armando níu sinnum, flest skotin fóru inn um vinstri hlið líkamans og tvö skot virtust vera í bak hins látna. Oddgeir segir mikla óvissu um í hvaða röð kúlurnar fóru í brotaþola og ekki hægt að segja með vissu hvernig atburðarrásin var.

„Eftir stendur að það sé engin leið til að átta sig nákvæmlega á hvað gerðist.“

Angjelin Sterkaj.
Fréttablaðið/Anton Brink

Óupplýst hvort byssan hafi horfið

Oddgeir segir ákveðinn misskilning í málinu varðandi haglabyssu sem Angjelin segir að Armando hafi tekið úr skottinu á bílnum sínum og lagt á hillu í bílskúrnum. Ekkja Armando sagði að það hafi aldrei verið byssa í bílskúrnum og sömuleiðis fann lögreglan ekkert vopn.

„Það liggur fyrir að félagar brotaþola komu þarna strax um nóttina, mjög fljótlega á heimilið. Þetta er bara óupplýst þá hvort byssan hafi horfið. Misskilningurinn er sá að ástæðan fyrir að ákærði skaut er ekki að hann sá haglabyssu, hann lýsti bara því sem hann sá, en hann taldi morðhótanirnar vera raunverulegar.“

Varðandi samverknað Claudiu, Murat og Shpetim segir Oddgeir ekki geta séð hvernig aðrir Angjelin gætu verið sekir. Gerði hann athugasemd við að samverknaður yrði notaður til að þyngja refsingu yfir Angjelin.

„Það myrtu engir aðrir Armando,“ sagði Oddgeir.

Fram kom í máli Kolbrúnar í morgun að einstaklingar gætu verið dæmdir fyrir samverknað þó þeir komi ekki beint að brotinu sjálfu. Þáttur hvers og eins í þessu máli hafi verið nauðsynlegur til að framkvæmdin myndi ganga upp.