Fertugur karlmaður fannst látinn fyrir framan íbúðarhús í bænum Nanortalik á suðurhorni Grænlands síðustu helgi. Greint er frá þessu í grænlenskum fjölmiðlum.

Líkið fannst á laugardag við götuna Tukingasoq, skammt frá kirkjunni í bænum. Lögregla og sjúkraliðar voru kölluð út og var maðurinn úrskurðaður látinn á staðnum.

Lögreglan telur manninn hafa verið myrtan og hafa fjórir karlmenn verið handteknir vegna gruns um morð. Tveir hinna grunuðu eru undir lögaldri. Allir fjórir hafa verið úrskurðaðir í 25 daga gæsluvarðhald og ákærðir fyrir morð.

Í bænum búa 1.185 manns.
Fréttablaðið/Getty images

Lögreglan í Nanortalik nýtur aðstoðar lögreglunnar í Danmörku ásamt fulltrúum frá öðrum bæjum í Kujalleq sveitarfélaginu. Tveir réttarmeinafræðingar voru kallaðir á staðinn sem aðstoða við rannsókn málsins.

Í dag er haldin sérstök minningarathöfn í kirkjunni fyrir bæjarbúa sem eru í áfalli eftir morðið.

Kirkjan í Nanortalik er eina kirkjan sem teiknuð er af Grænlendingi.
Fréttablaðið/Getty images

Bærinn er á samnefndri eyju, Nanortalik, og er um 100 kílómetrum norðvestan við syðsta odda Grænlands, Hvarf. Nafnið á bænum, Nanortalik, þýðir ísbjarnarstaður og búa þar 1.185 manns.

Nanortalik er vinabær Ísafjarðarbæjar á Grænlandi.