Teymisstjóri Áfallateymis við Landspítalann segir áhyggjuefni að mönnun sé ekki í samræmi við eftirspurn. Að henni vitandi eru ekki áform um að fjölga stöðugildum hjá áfallateyminu.

„Við myndum gjarnan vilja sinna fleirum, til dæmis veita fleirum áfallahjálp og stytta biðtímann eftir áfallameðferð til muna,“ segir Agnes Björg Tryggvadóttir, teymisstjóri og sérfræðingur í klínískri sálfræði, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Hún segir starfið hafa breyst í faraldrinum líkt og hjá öðrum meðferðaraðilum. Áfallateymið veitir í auknum mæli þjónustu í gegnum fjarfundarbúnað þó að þau hitti einnig skjólstæðinga í eigin persónu. Þar auki hefur starfsfólk teymisins sinnt sálrænum stuðningi á vegum COVID- stuðningsteymis. Það er þjónusta sem veitt er fólki sem er í einangrun með virk smit. Starfsfólk COVID-göngudeildar metur þá hvort þörf sé á frekari sálrænum stuðningi en þau geta veitt.

„Faraldrinum hafa fylgt ýmsar áskoranir en starfsfólk og skjólstæðingar teymisins hafa tekist á við þær með góðri samvinnu.“

Agnes segir áfallateymið sinna sínu hlutverki af fagmennsku og skila almennt góðum árangri.

„Mér finnst starfsfólk teymisins hafa sýnt mikinn sveigjanleika á þessu sérstaka ári og aðlagað sig hratt og vel að nýjum verkefnum og breytingum í þjónustunni án þess þó að draga úr gæðum hennar.“ segir Agnes.